Að minnsta kosti einn lést og fleiri særðust í hnífaárás í Nice fyrr í dag en árásin átti sér stað nálægt Notre Dame basilíku í borginni. Borgarstjóri Nice, Christian Estrosi, greindi frá því að ein manneskja hafi verið handtekin í tengslum við málið.

Að því er kemur fram í frétt BBC sagði Estrosi að allt benti til að um hryðjuverkaárás væri að ræða. Fólk er hvatt til að forðast svæðið en innanríkisráðherrann Gérald Darmanin hefur boðað til krísufundar í París.

Allt að þrír látnir

Upplýsingar um hversu margir létust í árásinni eru á reiki en Guardian hefur það eftir frönskum miðlum að einn hafi látist á meðan skandínavískir miðlar og BBC fullyrða að að minnsta kosti tveir hafi látist.

Þá greina enn aðrir frá því að þrír hafi látist í árásinni en fullyrt er á nokkrum miðlum að fórnarlömbin hafi verið afhöfðuð. BBC hefur það eftir frönskum miðlum að einn maður og ein kona hafi látist í árásinni. Árásarmaðurinn var handtekinn um 10 mínútum eftir árásina og var í kjölfarið fluttur á spítala.

Uppfært:

Estrosi greinir frá því á Twitter að þrír hafi látist í árásinni, þar af tveir á vettvangi.

Mínútuþögn fór fram innan þingsins í morgun vegna málsins.
Fréttablaðið/AFP