Karlmaður liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild eftir að hann var stunginn með hníf í kviðinn fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg í nótt.

Lögreglan fékk tilkynningu um árásina á öðrum tímanum í nótt en þegar komið var á vettvang kom í ljós að maðurinn, sem hafði verið stunginn, var með alvarlega áverka. Var hann fluttir með sjúkrabíl á bráðmóttökuna í Fossvogi.

Talið tengjast bílabruna

Einn maður var handtekinn á tíunda tímanum í morgun og situr hann nú fangaklefa fyrir rannsókn málsins og verður sennilega yfirheyrður. Aðspurður hvort téður maður sé grunaður um að hafa stungið hinn segir Júlíus Sigurjónsson, sérfræðingur hjá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglu að lögreglan muni ekki veita nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að málið sé rannsakað í tengslum við bílabruna í nótt. Ekki er greint nánar frá þessum bílabruna en í dagbók lögreglu frá því í morgun má sjá að tilkynnt var um eld í bíl bæði í Árbæ og í Kópavogi.

Lögreglan biður þá sem kunna að hafa orðið vitni að líkamsárásinni að hafa samband í tölvupóst á netfangið abending@lrh.is