Fréttablaðið kemur út á prenti í dag eftir að bilun í prentvél varð til þess að blaðið kom ekki út í prentútgáfu í gær og í fyrradag.

„Vélar og tæki bila, en þetta er sannarlega alvarlegasta bilun á prentvél Fréttablaðsins í tuttugu ára sögu þess,“ segir Björn Víglundsson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins.

„Við höfum beitt ýmsum ráðum til að halda áfram þjónustu við lesendur okkar,“ segir Björn og nefnir efldan fréttaflutning á fretta­bladid.‌is og að blað dagsins hafi verið sett fram neð áberandi hætti á vefnum.

„Í dag kemur út minna blað en alla jafna á fimmtudögum og vonandi verður ekki frekari truflun á þjónustu okkar við lesendur.“

Von er á sérfræðingi frá Þýskalandi í dag sem fer yfir prentvélina og tryggir rekstraröryggi hennar. „Ég vil þakka öllu starfsfólki Fréttablaðsins sem hefur staðið sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður. Þegar dagblað getur ekki prentað flokkast það sem krísa og þannig hefur vikan verið hjá okkur,“ segir Björn.