Búist er við að kol­efnis­út­blástur frá orku­notkun heimsins muni aukast um tæp 5 prósent á þessu ári sam­kvæmt nýrri orku­skýrslu Al­þjóða­orkumálastofnunarinnar (IEA).

„Þetta er brýn við­vörun um að efna­hags­batinn eftir CO­VID kreppuna sé allt annað en sjálf­bær fyrir lofts­lagið,“ segir Fati­h Birol fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­orkumálastofnunarinnar.

Í skýrslunni er því spáð að út­blástur kol­tví­sýrings gæti aukist um 1,5 milljarða tonna á þessu ári upp í 33 milljarða tonna, sem yrði mesta aukning á einu ári í rúman ára­tug.

Aukninguna má að öllum líkindum rekja til aukinnar kola­notkunar í orku­geiranum sem sam­kvæmt skýrslunni er sér­stak­lega al­geng í Asíu.

Eftir að heims­far­aldur CO­VID-19 skall á 2020 minnkaði orku­notkun heimsins til muna sem olli 5,8 prósenta sam­drætti í kol­efnis­út­blæstri niður í 31,5 milljarða tonna eftir að út­blástur náði há­punkti árið 2019 með 33,4 milljörðum tonna. Sam­drátturinn er sá mesti í sögunni og mælist fimm sinnum meiri en sá sem fylgdi efna­hags­hruninu 2009.

Þrátt fyrir þennan sam­drátt hefur styrkur kol­tví­sýrings í and­rúms­loftinu aukist til muna og mælist nú um 418 ppm sem er um 50 prósent hærra en við upp­haf iðn­byltingar.