Alþingi samþykkt í kvöld frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að stöðva verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni.

Frumvarpið var samþykkt í kvöld eftir langar umræður um frumvarpið og aðdraganda þess. Alls samþykktu 42 þingmenn frumvarpið, sex greiddu atkvæði á móti frumvarpinu og fimm þingmenn sátu hjá.

Neyðarástand hefur skapast vegna verkfallsins. Fyrr í dag staðfesti Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi gæslunnar í samtali við Fréttablaðið að öll loftför Gæslunnar væru óflughæf til sunnudags.

Verkfallið hefur staðið yfir í rúmar þrjár vikur eða frá 5. nóvember og náði til þriðjungs flugvirkja Landhelgisgæslunnar.

Samningaviðræður stóðu yfir hjá ríkissáttasemjara í gærkvöld þar sem flugvirkjum var boðinn eins árs samningur með hækkunum en því var hafnað.