Alþingi samþykkti í dag að fela ríkisendurskoðanda að gera úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar. Ríkisendurskoðandi mun því ráðast í fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni og skila skýrslu að þeirri vinnu lokinni. Meta á þætti sem snúa að stjórnsýslu og stjórnun Vegagerðarinnar, meðferð almannafjár og ráðstöfun til vegaframkvæmda og öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins og eftirlit með vegaframkvæmdum.

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, fór fram á úttektina sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

„Í fyrra komu upp nokkur tilvik þar sem slys og tjón urðu í kjölfar vegaframkvæmda, á sama tíma og miklu fé hefur verið varið í samgönguframkvæmdir í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar í faraldrinum. Líklega hefur því aldrei verið jafn rík þörf og nú til að hafa eftirlit með starfsemi og skilvirkni Vegagerðarinnar,“ segir Sara Elísa.