Alþingi var formlega rofið í dag og loks endanlega staðfest með forsetabréfi um þingrof að kosningar á þing fari fram þann 25. september eins og legið hefur fyrir í rúmt ár. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar mun því hefjast á morgun samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins, en haft er þar eftir Sigríði Kristinsdóttur, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, að kjörstaðir verði opnaðir í Smáralind og Kringlunni þann 23. ágúst.

Samkvæmt svari við fyrri fyrirspurn Fréttablaðsins mun framkvæmd kosninga taka mið af nauðsynlegum sóttvörnum á sama hátt og í forsetakosningunum í fyrra. Í kosningalögum sem samþykkt voru um kosningarnar 2021 í vor er gert ráð fyrir að hægt verði að sækja um utankjörfundaratkvæðagreiðslu þeirra sem eru í einangrun eða sóttkví vegna Covid-19 fimm dögum fyrir kjördag. Engar breytingar hafa verið gerðar á framkvæmd kosninga utan kjörfundar erlendis.