Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir því við þingmenn og forseta Alþingis að Alþingi komi saman á morgun til þess að gera breytingar á sóttvarnalögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni um málið.
Í tilkynningunni segir að ríkisstjórnin hafi ekki farið að tillögum sóttvarnalæknis um skimun og sóttkví á landamærunum og viðist vafi um lagaheimildir vera ástæðan fyrir því. Vísað er þar til tillagna um að tvöföld skimun verði gerð að skyldu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ítrekað kallað eftir því að tvöföld skimun verði gerð að skyldu við landamærin vegna fjölda smita erlendis frá. Koma þurfi í veg fyrir frekari útbreiðslu og koma í veg fyrir að nýtt afbrigði veirunnar berist til landsins.
Hafa þurfi hraðar hendur
Velferðarnefnd Alþingis er nú með til meðferðar breytingar á sóttvarnalögum en þar eru ákvæði sem gera má ráð fyrir að taki tíma að klára. Hafa þurfi því hraðar hendur til að koma tillögum sóttvarnalæknis í framkvæmd.
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, lagði til á fundi velferðarnefndar í dag lagabreytingar vegna málsins en tillaga hennar var ekki samþykkt. Samfylkingin mun því standa fyrir framlagningu slíks frumvarps.
„Nú þarf Alþingi að rísa undir ábyrgð og tryggja að hægt sé að fara eftir tillögum sóttvarnarlæknis sem allra fyrst,“ segir í tilkynningunni.