„Það var Friðrik skákmaður sem kom til okkar og samdi um að við myndum steypa skjaldarmerki Íslands í kopar upp á húsið þar sem núna er kóróna,“ segir Guðmundur Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stálsmiðjunnar Héðins, um pöntun sem barst á árinu 1990 frá Friðriki Ólafssyni, þáverandi skrifstofustjóra Alþingis.

Í Héðni var skorið út mót af skjaldarmerkinu í timbur. Fyrirmyndin var ef til vill óvenjuleg. „Það eina sem menn fundu í þrívídd var túkallinn. Þannig að þetta var skorið út eftir túkalli sem var stækkaður upp,“ rifjar Guðmundur upp.

Handverkið var langt komið þegar babb kom í bátinn. „Húsafriðunarnefnd komst í málið og setti sig upp á móti þessu. Það varð mikil orrahríð milli Alþingis og húsafriðunarnefndar,“ rifjar Guðmundur upp. Mikil blaðaskrif hafi orðið og Sigmund, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, gert einar fjórar myndir um málið.

„Þetta ball allt saman endaði með því að húsafriðunarnefnd hafði betur og Alþingi varð að bakka. Friðrik skákmaður kom þá og vildi endursemja. Það varð dálítið stapp í því sem endaði með því að við fengum borgað eitthvað fyrir verkið en þó ekki nóg. Þannig að það varð úr að við héldum mótinu eftir og það hangir hér uppi á vegg,“ lýsir Guðmundur atburðarásinni. „Við erum mjög ánægð með gripinn. Hann sómir sér vel og er í heiðurssessi,“ tekur hann fram.

Í stigagangi við mötuneyti starfsmanna hangir því í dag mót, handskorið í timbur, sem hægt væri að nota til að steypa skjaldarmerki Íslands. „Sá maður sem þetta gerði heitir Hörður Sigurjónsson og var afburða handverksmaður,“ segir Guðmundur nánar um smíði mótsins.

Handboltaleikurinn kynti undir

Sú umræða sem nú er hafin, eftir þingsályktunartillögu Björns Levís Gunnarsonar Pírata um að skipta út dönsku kórónunni á þaki Alþingishússins og koma þar í staðinn fyrir íslenska skjaldarmerkinu, hefur ekki farið fram hjá Guðmundi. Hugmyndin hefur fengið byr undir báða vængi vegna þróunar mála á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Búdapest þar sem Dönum er kennt um að íslenska liðið hafi ekki náð í undanúrslit.

„Mér finnst þetta skondin og skemmtileg umræða. Ég myndi halda að það væri æra og sómi Íslendinga að hafa skjaldarmerki Íslands á Alþingishúsinu,“ segir Guðmundur um sína skoðun. Ef slík ákvörðun verður tekin gæti Alþingi snúið sér til Héðins.

„Við getum skaffað þeim afsteypu af þessu móti en þeir fá ekki mótið aftur. Við látum það ekki af hendi, það kemur ekki til greina,“ undirstrikar Guðmundur Sveinsson.