Leyfi sem úthlutuð voru til olíuborunar í Mexíkoflóa hafa verið afturkölluð. Dómari alríkisdómstóls Bandaríkjanna telur ekki hafa verið tekið nægilegt mið af loftslagsbreytingum við úthlutunina, samkvæmt frétt New York Times.
Dómarinn sagði að innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna þurfi að gera nýja úttekt á áhrifum olíuborunar á loftslag heimsins áður en úthlutun á sér stað. Leyfin taka til áttatíu milljón ekrur af Mexíkóflóa.
Ríkisstjórn Joe Biden forseta Bandaríkjanna var með uppboð á leyfunum í fyrra. Umhverfissinnar gagnrýndu ákvörðun Biden um að halda uppboðið harðlega en hann hafði lofað því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í landinu. Uppboðið var það stærsta í sögu Bandaríkjanna.
Innanríkisráðuneytið þarf nú að gera nýja umhverfisrýni þar sem tekið er tillit til nýjustu upplýsinga um losun gróðurhúsategunda sem myndi fylgja boruninni. Þegar sú vinna er kláruð þarf ráðuneytið að taka ákvörðun um hvort nýtt uppboð verði haldið.

Uppboðið var kært til alríkisdómstóls af nokkrum loftslagshópum, meðal annars hóps sem heitir Earthjustice. Lögfræðingur hjá hópnum, Brettny Hardy, segir niðurstöðuna vera gríðarstóra.
Að sögn Hardy gætu leyfin tryggt að olíuborun verði áfram á svæðinu til tugi ára, með tilheyrandi umhverfisáhrifum.
Búið var að skipuleggja uppboðið áður en Biden tók við forsetaembættinu og var honum dæmt að standa við það af alríkisdómara. Umhverfishópar bentu á að ríkisstjórnin hefði þrátt fyrir það aðra möguleika í stöðunni, meðal annars að gera nýtt umhverfisrýni sem tæki til greina umhverfisáhrif þess að brenna olíuna sem sótt yrði í flóann.
Kæran byggði á því að innanríkisráðuneytið væri að styðja sig við úrelt umhverfisrýni sem gert var á forsetatíð Donald Trump. Ekki væri tekið tillit til nýjustu upplýsinga um áhrif olíuborunar í sjó á loftslagið.
Olíufyrirtæki sem höfðu keypt leyfi til að bora í Mexíkóflóa lýsa yfir vonbrigðum yfir niðurstöðu dómstólsins.