Dýraverndaryfirvöld eða MAST hafa í fyrsta sinn beitt úrræðum sínum til að uppræta kettlingasölu sem farið hefur fram í íbúð í miðborginni um langa hríð, jafnvel í fimm ár. Þar hefur kona haldið fjölda katta innan dyra í litlu íbúðarhúsnæði og notað þá til undaneldis og selt síðan kettlinga fyrir háar fjárhæðir.

Margir sem keyptu kettlinga af konunni hafa verið slegnir yfir aðstæðunum sem við blöstu; fjölda vanræktra dýra, þröngur aðbúnaður og óþrifnaður. Konan hefur haft eitt svefnherbergi og búr undir læðurnar, fressin og gotin, samkvæmt fjölmörgum sem Fréttablaðið hefur rætt við.

Á margra vitorði

„Það virðast allir vita hver þessi kona er“, segir Ragnheiður Gunnarsdóttir, sem rekur Kisukot á Akureyri. Á Facebook síðu hennar hafa margir sagt frá sinni upplifun.

Ragnheiður keypti um helgina níu kisur af konunni og greiddi 160 þúsund krónur fyrir. Með því vildi Ragnheiður tryggja dýrunum betra atlæti.

„Hún er raunar svo þekkt að þegar ég skrifaði um þetta mál inn á Facebook voru margir sem höfðu samband og könnuðust við að hafa farið heim til hennar. Allt þetta fólk var sammála um að velferð katta væri ekki í hávegum höfð þar. Fólk lýsir slæmri lykt og óþrifnaði. Einnig virðast kettirnir oft koma frá henni með bæði eyrnamaur og orma. Konan sjálf er ekki sögð í góðu líkamlegu ástandi til að sjá um alla þessa ketti,“, segir Ragnheiður.

Ragnheiður rekur Kisukot á Akureyri.
Mynd/Aðsend

Umrædd kona er rúmlega sjötug og býr í um 50 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi í miðborginni í eigu Reykjavíkurborgar eða Félagsbústaða.

Ekki fæst uppgefið hvaða úrræðum MAST hefur nýlega beitt konuna en samkvæmt henni má hún núna einungis eiga tvo ketti. Hún segist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa fengið neinar sektir frá MAST.

Að minnsta kosti fimm einstaklingar hafa undanfarið sent tilkynningar til MAST vegna meðferðar á köttum í umsjón konunnar. Hjá Kattholti kannast umsjónarmenn við málið og félagið Villikettir sömuleiðis.

Lýsingar fólks á Facebook-síðu Ragnheiðar eru meðal annars þessar:

„Hún lætur læðurnar eiga stanslaust kettlinga. Býr með þær í 50 fermetra íbúð. Örugglega 10 - 15 fullorðnar kisur"

„Kettirnir sem komu í fyrra frá henni voru vannærðir og illa lyktandi"

Þröngum aðbúnaði dýranna er meðal annars lýst svo: „Fékk mér ekki kettling þegar hún sýndi mér búrin. Þrjár læður í of litlum búrum, taldi 17 kettlinga og 8 fullorðna ketti inni í þessu herbergi. Ein var kettlingafull." Annar viðmælanda blaðsins segir: „Hún passaði að við sæjum ekki inn í herbergi kattanna og kom fram með gotið í Bónuspoka og skellti því á borðið svo við gætum skoðað.“

„Það var dregið fyrir alla glugga. Engin birta. Pappakassi með pappír fyrir sandkassa. Allir fitugir og drullugir kettirnir," skrifar enn einn.

Kisurnar ekki til sýnis í herberginu

Ung kona, sem vill ekki láta nafns síns getið, kveðst hafa fengið kettling hjá konunni fyrir um einu og hálfu ári síðan. Kettlingurinn reyndist að hennar sögn með mjög bólgin eyru og eyrnamaur.

„Ég hef persónulega ekki séð þessi búr hjá henni því það var mjög mikilvægt að það mátti ekki sjá inn í herbergi kisanna og dregið var fyrir glugga. Það mátti ekki heldur gefa upp að við hefðum fengið kisuna hjá henni,“ segir þessi unga kona. Fleiri hafa slíka sögu að segja.

Tekjur af sölunni á kettlingunum, sem getur verið á bilinu 25 til 50 þúsund, virðast ekki gefnar upp til skatts þar sem konan vill eingöngu reiðufé sem greiðslu.

„Hún hefur átt fress af Persakyni sem hún keypti fyrir rúmlega fimm árum og selur því kettlingana sem eitthvert persakyn,“ segir Ragnheiður.

Persinn sem ber nafnið „Púki“ er ekki lengur hjá konunni. Í samtali við Fréttablaðið segir konan að honum hafi verið stolið af sér af ungu fólki, ungri konu og manni sem hafi ruðst inn til sín með hótunum. Þetta segir Anika Lind Olsen sem nú á Púka alrangt. "Við komum þarna og borguðum fyrir Púka 90 þúsund krónur. Sama verð og hún keypti hann á og björguðum honum.. Og núna hefur Púki öðlast nýtt líf", segir Anika. Púki hefur „feðrað“ kettlingana hjá konunni að mestu, eftir því sem næst verður komist.

Persafressið Púki fyrir nokkrum árum á meðan hann var í eigu fyrsta eigandans
Mynd/aðsend

„Það er allt lygi sem búið er að segja,“ segir konan við Fréttablaðið. Spurð hvenær hún hóf að selja kettlinga segir hún: „Ég get ómögulega munað það.“

„Ég er ekkert hættuleg kona, þetta er bara lygi. Ég hef sannanir fyrir því að þeim leið vel, ég hef vitni. Ég má bara ekki nefna konuna en hún er alltaf að heimsækja mig. Ég er bara í einelti af eftirlitinu,“ segir konan.

Einnig segir konan að dýraeftirlitið hafi alltaf vitað af hennar högum. „Þegar ég er að gelda dýrin læt ég alltaf vita,“ segir hún. Þeir hafa alltaf átt að vita hvað ég hef átt margar kisur.“

Aðspurð hve marga kettlinga hún hefur selt og á hve löngu tímabili fást ekki skýr svör. „Ég man það ekki neitt,“ er svarið.

Núna á konan tvær læður sem hún hyggst láta gelda. Auk þess á hún eitt fress sem hún segist ekki munu taka úr sambandi og um hann fari vel. „Hann sefur alltaf upp í hjá mér, uppi í mínu rúmi“, segir hún.

Með vitund Félagsbústaða og MAST

Félagsbústaðir sem leigja konunni hafa fengið upplýsingar um að ekki sé allt með felldu og barst ábending þess eðlis í febrúar síðastliðnum.

„Gripið hefur verið til ráðstafana,“ segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, í ljósi þess að slíkt eigi við ef til dæmis brotið sé í bága við reglur í fjölbýlishúsi með leyfislausri atvinnustarfsemi.

Meira láta Félagsbústaðir ekki uppi um málið nema að vísa til þess að MAST hafi líka verið að skoða það.

Samkvæmt verkferli MAST fær umráðamaður frest til úrbóta ef gerð er athugasemd við umhirðu eða aðbúnað dýrs við eftirlit, að hámarki einn mánuð við alvarleg frávik. MAST hefur heimild til þvingunarúrræða ef úrbótum er ekki sinnt, svo sem beitingu dagsekta eða taka dýr úr umsjá viðkomandi. Í alvarlegum málum er hægt að taka dýr fyrirvaralaust, eða kæra mál til lögreglu. Slíkt var ekki gert í þessu tilfelli.

Púki litli hér til vinstri.
Fréttablaðið/Aðsend