Hluti af Álfhólsskóla í Kópavogi verður lokað frá og með fimmtudeginum 4.mars vegna myglu sem greinst hefur í þaki byggingarinnar. Um er að ræða varúðarráðstöfun sem gerð er til að vernda nemendur og starfsfólk, segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Álman sem um ræðir hýsir meðal annars stofur fyrir list- og verkgreinar auk sérkennslustofa og nær yfir um fjórðung Álfhólsskóla, Hjalla, eða 1.130 fermetra. Í Hjalla eru 5. til 10. bekkur skólans, alls um 400 nemendur.
Myglan uppgötvaðist í kjölfar þess að starfsmaður skólans fór að finna fyrir einkennum sem fylgja raka- og mygluskemmdum. Verið er að rannsaka hvort myglan hafi náð að hafa áhrif á loftgæði í kennslustofum en ekki er talið að um svipaðar aðstæður sé að ræða í öðrum álmum skólans þar sem þakuppbygging er ólík.
Unnið er að endurskipulagningu kennslunnar en samkvæmt skólayfirvöldum Álfhólsskóla verður öllum nemendum tryggð kennsla.