Almennt er ekki fjallað um fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum, þar með talið fatlað fólk, í kynfræðslu,“ segir Þóra Birgit Bernódusdóttir sem ásamt Rósu Halldórsdóttur setti nýlega í loftið heimasíðuna Jákvætt kynlíf.

Á heimasíðunni má nálgast fræðsluefni um kynlíf sem snýr að jákvæðum þáttum sem tengjast kynlífi, eins og unaði, samskiptum og samþykki en einnig eru tekin fyrir tabú efni sem Þóra og Rósa segja að í gegnum tíðina hafi verið horft á með neikvæðum augum en þær sýni í jákvæðu ljósi. Til dæmis klám, kynlíf fatlaðs fólk og blæti.

Þóra og Rósa útskrifuðust úr Þroskaþjálfafræði frá Háskóla Íslands í vor og er heimasíðan þáttur í lokaverkefni þeirra. „Við vorum sammála um að við vildum ekki skrifa bara hefðbundna heimildaritgerð og vildum búa eitthvað til sem hægt væri að nýta á vettvangi,“ segir Rósa.

Myndirnar sýna vel og greinilega þá þætti sem fjallað er um á heimasíðunni.
Mynd/Aðsend

Fatlað fólk fái ekki að vera með í kynfæðslu í skólum

Þóra Birgit og Rósa segja heimildir sýna að oft og tíðum sé fatlað fólk tekið út úr kynfræðslutímum í skólum vegna þess að kennurum þess efnis finnist gjarnan óþægilegt að kenna því um kynlíf. „Þegar við horfum á þá fordóma sem fatlað fólk fær almennt þá er stór partur af því að horfa á það sem „eilíf börn“ sem hvorki hafa vilja né getu til þess að vera í rómantískum og/eða kynferðislegum samböndum,“ segir Rósa.

„Ekki er fjallað um mismunandi líkama og þarfir þeirra í kynfræðslu og þar með er efnið orðið útilokandi, þetta getur leitt til fordóma í garð jaðarsettra hópa þegar kemur að kynlífi,“ segir Þóra.

Spurð að því hversu mikilvægt sé að veita fötluðu fólki kynfræðslu segja Rósa og Þóra það afar mikilvægt. Rannsóknir sýni að fatlað fólk sé einn sá jaðarhópur sem líklegastur sé til þess að lenda í kynferðisofbeldi.

„Það hefur sýnt sig að kynfræðsla er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir óheilbrigða kynlífshegðun svo sem kynferðisofbeldi eða kynsjúkdóma. Ef kynfræðsla myndi miðla til allra væri hægt að minnka fordóma í garð jaðarsettra hópa þegar kemur að kynlífi og á sama tíma væri hægt að gæta að velferð þessara hópa, segir Þóra.

Eru uppi fordómar þegar kemur að kynlífi fatlaðs fólks?

„Já, við teljum að það séu vissulega til staðar fordómar þegar kemur að kynlífi jaðarsettra hópa og oft sjáum við þessa fordóma í blætisdýrkun (fetish­izing). Þetta sjáum við til dæmis með kynvæðingu hinsegin fólks og svarts fólks,“ segir Rósa.

„Það er til dæmis hægt að líta á hvernig horft er á kynlíf milli tveggja karla miðað við hvernig horft er á kynlíf milli tveggja kvenna. Annað er oft talið ógeðslegt og ónáttúrulegt á meðan hitt þykir oft kynæsandi og eftirsóknarvert,“ bætir Rósa við.

„Það er til dæmis hægt að líta á hvernig horft er á kynlíf milli tveggja karla miðað við hvernig horft er á kynlíf milli tveggja kvenna.“

„Einnig er eitt mjög algengt leitarorð á klámsíðum „ebony“ sem er þá kynlíf milli einhvers sem er hvítur og einhvers sem er svartur og í langflestum tilfellum er það hvítur karl og svört kona,“ segir Þóra.

„Þegar þetta er staðallinn þegar kemur að kynlífi með jaðarsettum hópum þá er ekki lengur verið að horfa á fólk sem einstaklinga heldur sem kynhluti,“ bætir hún við. „Þá erum við ekki að segja að ef hvítur karlmaður stundar kynlíf með svartri konu sé það sjálfkrafa blætisdýrkun en þegar það er orðið fantasían og þegar ekkert er horft lengur á svörtu konuna sem einstakling heldur staðalinn þá er það orðið að blætisdýrkun.“

Myndirnar á heimasíðunni eru unnar af Iðunni Gígju Kristjánsdóttur og Guðnýju Margréti Eyjólfsdóttur.
Mynd/Aðsend

Vantar frekari umræðu um ólíka líkama skynjun og hinseginleika

Rósa og Þóra eru sammála um að kynfræðsla í íslensku skólakerfi sé að þróast í rétta átt og að hún sé að aukast. Það þýði þó ekki að hún sé fullkomin. Kynfræðslan hér á landi sé góð þegar kemur að umfjöllun um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og líffræðina í kringum kynlíf.

„Okkur finnst vanta meiri um­ræðu um ólíka líkama og skynjun, ásamt hinseginleika. Bæði þegar kemur að samþykki og samskiptum en einnig þegar kemur að unaði,“ segir Þóra.

„Að sjálfsögðu er líffræðilegi þátturinn mjög mikilvægur og rannsóknir sýna að þegar við fjöllum um þann þátt þá minnkar það líkur á óvelkomnum þungunum og kynsjúkdómum,“ heldur hún áfram.

„Við teljum þó að ef aðeins er horft á líffræðilega þáttinn þá sé ekki verið að kenna fólki að kynlíf á að vera skemmtilegt fyrir alla aðila, það er að segja, ef þú hefur yfir höfuð gaman af kynlífi,“ segir Þóra.

„Kynlíf snýst um svo miklu meira en bara að búa til börn og reyna að fá ekki kynsjúkdóma á meðan, það snýst um nánd, traust og unað,“ bætir Rósa við.

Á heimasíðunni eru greinargóðar upplýsingar um samskipti, samþykki og mörk, fötlun og kynlíf, LGBTQ og kynlíf, klám og nautn. Myndirnar á heimasíðunni eru sérstaklega skemmtilegar og sýna það sem frætt er um. Iðunn Gígja Kristjánsdóttir og Guðný Margrét Eyjólfs gerðu myndirnar.

Hér má skoða heimasíðuna Jákvætt kynlíf.