Þingið hafnaði í gær frumvarpi Pírata um afglæpavæðingu fíkniefna þrátt fyrir mikinn stuðning almennings.

Mikil reiði og vonsvikni er vegna ákvörðunar þingsins ef marka má umræður á samfélagsmiðlum. Telja margir að ákvörðun meirihluta þingmanna hafi verið dýrkeypt mistök.

Afstaða þingheims lá ekki fyrir og áður en gengið var til atkvæða. Í frumvarpinu var lagt til að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna yrði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna yrði fellt brott. Þannig væri áhersla á að hjálpa neytendum vímuefna í stað þess að refsa þeim.

Ungliðahreyfingar harma aðgerðaleysið

Ungir sjálfstæðismenn segjast harma aðgerðarleysi Sjálfstæðisflokksins enda hafi málefnið verið hluti af stefnu SUS og flokksins í fjöldamörg ár.

„Stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað. Fælingarmáttur refsistefnunnar er minniháttar og afleiðingin er sú að fólk sem glímir við fíknisjúkdóma fær síður þá hjálp sem það nauðsynlega þarf. Mál sem þessi eiga að vera heilbrigðismál, ekki sakamál,“ segir í tilkynningu frá SUS.

Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna segjast harma að ekki hafi náðst samstaða um frumvarpið og fara er fram á að þingmenn Vinstri grænna beiti sér til að leiðrétta stöðu mála.

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, varaforseti ungra jafnaðarmanna, beindi orði sínu til þingmanna fyrir atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi.

„Með því að samþykkja ekki afglæpavæðingarfrumvarpið í kvöld er tekin meðvituð ákvörðun um að lengja í þjáningum veiks fólks - skemma fleiri líf.“

Hvað með samráð við notendur?

Elísabet Brynjarsdóttir hjúkrunarfræðingur vinnur mikið með fólki með fíkn og hefur miklar áhyggjur af stöðu mála.

Hún bendir á að með annarri bylgju af COVID-19 muni skjólstæðingar hennar lenda verstir í því.

„Og við ákváðum að fresta afglæpavæðingu útaf skorti á samráði við lögreglu? Hvað með notendur?“

Þingmenn sem kusu gegn frumvarpinu sögðu málefnið gott en frumvarpið slæmt. Það hafi verið samið án samráðs við mikilvæga aðila, þar á meðal lögreglu.

Fjölmargir gagnrýna harðlega þá þingmenn sem höfnuðu frumvarpinu deila persónulegum sögum um fíkn til vekja athygli á málinu.