Meirihluti landsmanna, eða 63 prósent, myndi frekar vilja kjósa frambjóðendur en flokka. Þetta sýna niðurstöður nýjasta Þjóðarpúls Gallup.
Þar kemur einnig fram að konur myndu frekar vilja kjósa einstaka frambjóðendur en karlar og að yngri frambjóðendur eru ekki eins spenntir fyrir því og þeir eldri. Þá er munur á því eftir því hvað fólk ætlar að kjósa hvort þau vilja það en helst vilja þau kjósa einstaka frambjóðendur sem myndu skila auðu eða ekki kjósa, eða þau sem ætla að kjósa Flokk fólksins eða þau sem ætla að kjósa Pírata.
Spurt var í Þjóðarpúlsinum um þekkingu á stefnumálum og áherslum flokkanna og þá sögðust tveir af hverjum þremur þekkja stefnumál þeirra vel, 12 prósent mjög vel og 51 prósent frekar vel. Karlar voru líklegri til að þekkja stefnumálin vel og þau sem voru með meiri menntun.
Þá kemur fram í Þjóðarpúlsinum að almenningur er almennt mjög spenntur fyrir úrslitum alþingiskosninganna á morgun og miðað við könnun sem framkvæmd var árið 2017 er almenningur spenntari í ár en fyrir síðustu kosningar árið 2017. Samanburðinn má sjá á myndunum hér að neðan.

Ætla að fylgjast með
Þá kemur fram að 70 prósent ætla að horfa á kosningasjónvarp annað kvöld og 41 prósent ætla sér að fylgjast með kosningavef fjölmiðla.
Um 15 prósent ætla að fylgjast með umræðu á Twitter eða öðrum samfélagsmiðlum og tíu prósent ætla í kosningapartý. Um átta prósent ætla á kosningavöku stjórnmálaflokks.
Hægt er að kynna sér niðurstöður Þjóðarpúls Gallups betur hér.