Meirihluti landsmanna, eða 63 prósent, myndi frekar vilja kjósa fram­bjóð­endur en flokka. Þetta sýna niður­stöður nýjasta Þjóðar­púls Gallup.

Þar kemur einnig fram að konur myndu frekar vilja kjósa ein­staka fram­bjóð­endur en karlar og að yngri fram­bjóð­endur eru ekki eins spenntir fyrir því og þeir eldri. Þá er munur á því eftir því hvað fólk ætlar að kjósa hvort þau vilja það en helst vilja þau kjósa ein­staka fram­bjóð­endur sem myndu skila auðu eða ekki kjósa, eða þau sem ætla að kjósa Flokk fólksins eða þau sem ætla að kjósa Pírata.

Spurt var í Þjóðar­púlsinum um þekkingu á stefnu­málum og á­herslum flokkanna og þá sögðust tveir af hverjum þremur þekkja stefnu­mál þeirra vel, 12 prósent mjög vel og 51 prósent frekar vel. Karlar voru lík­legri til að þekkja stefnu­málin vel og þau sem voru með meiri menntun.

Þá kemur fram í Þjóðar­púlsinum að al­menningur er al­mennt mjög spenntur fyrir úr­slitum al­þingis­kosninganna á morgun og miðað við könnun sem fram­kvæmd var árið 2017 er al­menningur spenntari í ár en fyrir síðustu kosningar árið 2017. Saman­burðinn má sjá á myndunum hér að neðan.

Mynd/Gallup

Ætla að fylgjast með

Þá kemur fram að 70 prósent ætla að horfa á kosninga­sjón­varp annað kvöld og 41 prósent ætla sér að fylgjast með kosninga­vef fjöl­miðla.

Um 15 prósent ætla að fylgjast með um­ræðu á Twitter eða öðrum sam­fé­lags­miðlum og tíu prósent ætla í kosninga­partý. Um átta prósent ætla á kosninga­vöku stjórn­mála­flokks.

Hægt er að kynna sér niður­stöður Þjóðar­púls Gallups betur hér.