Kjósendur í Sviss hafa samþykkt tillögu þess efnis að mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar verði gerð ólögleg. 63 prósent greiddu atkvæði með tillögunni og 37 prósent gegn henni.

Þetta er stór sigur fyrir hinsegin samfélagið í Sviss en baráttusamtök fyrir réttindum hinsegin fólks í Sviss hafa lengi sagt að svissnesk löggjöf sé langt á eftir öðrum Evrópuríkjum þegar kemur að hinsegin málefnum. Tillagan hefur þó ekki lagagildi enn.

Sýnir aukið umburðarlyndi

Ekki hafði verið búist við því að úrslitin yrðu jafn afgerandi og raunin varð og eru þau talin vera til marks um að almenningur vilji löggjöf sem tekur á mismunun. Í tilkynningu frá samtökunum Pink Cross, sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks, segir að úrslitin séu til marks um aukið umburðarlyndi.

„Úrslitin sýna aukið umburðarlyndi í garð lesbía, homma og tvíkynhneigðra. Eftir þessar skýru niðurstöður mun hinsegin samfélagið nota meðbyrinn til þess að ná fram enn meiri umbótum á löggjöfinni og ná fram jöfnum rétti til hjónabands.“

Frumvarp sem myndi heimila hjónabönd fólks af sama kyni er nú til meðferðar hjá svissneska þinginu.

Vita ekki hvar mörkin liggja

Þeir sem talað hafa gegn lögunum hafa sagt að þau myndu fela í sér takmörkun á tjáningarfrelsi. Meðal annars sagði Benjamin Fischer, meðlimur í Svissneska flokki fólksins, að mörkin væru óskýr.

„Við vitum ekki einu sinni hvort að það verði löglegt að segja brandara um samkynhneigða,“ sagði hann við svissneska ríkissjónvarpið. „Við búum í landi sem hefur tjáningarfrelsi og fólk á að fá að hugsa og segja það sem það vill, jafnvel þó það kunni að vera smekklaust.“