„Þetta rennir stoðum undir þann málflutning, sem við höfum lengi haft uppi í þessari umræðu; að það sé fullkomlega ómálefnalegt að halda því fram að það velti á því að innflutningur á fersku kjöti verði áfram bannaður hvort verja megi íslenskan almenning fyrir þeirri vá, sem vaxandi sýklalyfjaónæmi er.“

Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um þau tíðindi að sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé sé álíka mikið og í alifuglum og svínum. Matvælastofnun birti í morgun skýrslu þess efnis. Í þörmum 4% lamba, sem könnuð voru í fyrra, voru bakteríur sem voru ónæmar fyrir sýklalyfjum.

Sjá einnig: Sauðfjárbændur undrandi á ónæmi í sauðfé

Félag atvinnurekenda hefur barist fyrir því, sem nú hefur verið ákveðið, að heimilt verði að flytja inn ófrosið kjöt frá Evrópu. Ólafur segir að stórar fullyrðingar um hreinleika innlendra afurða annars vegar og hættuna sem stafi af innflutningi hins vegar, hafi verið byggðar á ófullnægjandi upplýsingum. Eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum hafi verið lakar hér en í öðrum ríkjum EES. „Ísland var seinna til en önnur EES-ríki að taka upp Evrópureglur um slíkt eftirlit og hrinda því í framkvæmd.“

Fréttablaðið ræddi við forsvarsmann Landssambands sauðfjárbænda í morgun, þegar hann hafði ný fengið fréttirnar. Hann sagði að þetta kæmi bændum í opna skjöldu.

Ólafur segir að fyrstu mælingar sýni að íslenskar afurðir séu alls ekki lausar við sýklalyfjaónæmar bakeríur. Þær sé að finna í alifuglum, sauðfé og svínum. „Staðan er svipuð og í hinum norrænu ríkjunum, sem búa við frjáls milliríkjaviðskipti með ferskar búfjárafurðir.“

Ólafur segir að sýklalyfjaumræðan sé flókin og nái til margra þátta, meðal annars sýklalyfjanotkunar í heilbrigðiskerfinu, aukin ferðalög á milli landa, innflutning á grænmeti og ófullnægjandi frárennslismál.

Hann segir að FA taki undir með yfirdýralækni sem segir að umræðan um innflutning á fersku kjöti hafi verið á villigötum. „Þegar rætt er um varnir gegn sýklalyfjaónæmi er nauðsynlegt að skoða alla þætti málsins af yfirvegun og á grundvelli traustra gagna. Að okkar mati er hægt að vinna gegn sýklalyfjaónæmi án þess að leggja óþarfar hömlur á frjáls milliríkjaviðskipti. Það gerist ekki síst með eftirliti, forvörnum á borð við ábyrga notkun sýklalyfja, fræðslu um rétta meðhöndlun matvæla, ábendingum til ferðamanna um hreinlæti og umgengni við búfénað – og síðast en ekki síst með samstarfi við önnur Evrópuríki um varnir, eftirlit og viðbótartryggingar.“