Særún Ósk Pálmadóttir sérfræðingur á sviði almannatengsla og ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf segir í samtali við Fréttablaðið að miðað við þær upplýsingar sem eru til taks núna um smáskilaboð Tómasar A. Tómassonar, þingmanns Flokks fólksins, sé er erfitt að dæma á þessu stigi hvort hann ætti að stíga af þingi eða hvort flokkurinn ætti að snúa við honum baki,

„Ef frekari upplýsingar koma upp á yfirborðið þá náttúrulega snýst dæmið við.“ Segir Særún.

Skjáskot af smáskilaboðum sem Tómas A. Tómasson, Þingmaður Flokks Fólksins, sendi vini sínum árið 2014 voru birt víða samfélagsmiðlum í dag, þar á meðal á Twitter síðu Tómasar, sem var eytt síðar.

Samtalið sem birtist í skjáskotinu hefur vakið mikla athygli og hörð viðbrögð margra. Tómas hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir ummæli sín sem þykja bera vott um mikla kvenfyrirlitningu. Þá hafa margir sem hafa rýnt í skilaboðin túlkað þau sem svo að Tómas hafi verið lýsa vændiskaupum í Tælandi.

Skilaboðin hafa vakið mikil og hörð viðbrögð
Fréttablaðið/Skjáskot

Þessu ásökunum hefur Tómas neitað og sagðist í samtali við blaðamann Vísi ekki líta svo á að hann hafi greitt fyrir kynlíf í Taílandi árið 2014. Þá hefur Inga Sæland, formaður Flokks Fólksins, stigið fram og gagnrýnt „óþverra orðbragð“ Tómasar en þó lýst yfir trausti á Tómas og sagt að engir eftirmálar munu verða í þessu máli af hálfu þingflokksins og að hann njóti enn stuðnings flokksins.

Spurð út í viðbrögð Ingu og ummæli hennar í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni, svara Særún að hún hafi staldrað við það sem Inga sagði um málið. Að sé persónulegt og eigi ekki erindi við almenning. Í því samhengi bendir hún á:

„Við höfum séð nokkuð mörgu dæmi um það upp á síðkastið þar sem menn í valdastöðu eru sakaðir um að hafa brotið á konum eða nýtt sér neyð þeirra og skiptir hér síður máli um það hvort það sé persónulegt og tengist ekki þeirra starfi eða ábyrgðarstöðu, nærtækasta dæmið hér er ef til vill mál fyrrum formanns SÁÁ sem sagði af sér eftir að upp komst um vændiskaup í fyrri tíð en þessi dæmi eru vissulega ólík að eðlisfari.“

Þegar sjónum er beint að orðbragðinu sem birtist í skilaboðunum og viðbrögðum fólks við umræðuefninu sem margir skilja sem svo að vísi til hugsanlegra vændiskaupa Tómasar segir Særún:

„Orðbragð Tómasar í þessum skilaboðum vekur upp óhug meðal almennings, enda situr hann á Alþingi okkar landsmanna og þarf að sýna af sér vissan drengskap, ef svo má kalla. Tóninn og orðbragðið í þessum skilaboðum gefa lítið annað til kynna um að þar ýi hann að vændiskaupum, en hvort satt sé veit hann væntanlega bara einn.„

Þá hafi svör Tómasar í viðtali við blaðamann Vísis ekki verið sérlega traustvekjandi og hafa flækt málið enn frekar mati Særúnar.

„Það að hann neiti að gefa já eða nei svar við þeirri spurningu hvort hann hafi greitt fyrir kynlíf skilur einnig bara eftir fleiri spurningar en svör. Þegar hann var fyrst spurður um málið af fjölmiðlum. „Það að snúa út úr eða neita tjá sig lítur bara sjaldan vel út og ýjar að því að viðkomandi hafi eitthvað skítugt í pokahorninu.“

Erfitt er að segja til um langtíma áhrif þessa máls á flokkinn og stjórnmálaferil Tómasar á þessari stundu. Tómas er á þessari stundu ekki undir neinni pressu meðal flokksbræðra sinna að segja af sér, þvert á móti stendur flokkurinn þétt við bakið á honum. Særún segir í samtali við blaðamann að mál Tómasar og viðbrögð þingflokksins minna um margt á viðbrögð Framsóknarflokksins við særandi ummælum sem Sigurður Ingi Jóhannsson lét falla fyrir skömmu, og vakti mikla athygli.