Fyrir nokkrum dögum sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá starfandi utanríkisráðherra í fjarveru Þórdísar Reykfjörð, að ekki væri útilokað að opnuð yrði herstöð að nýju á Íslandi. Umræða hefði þó ekki farið fram um slíkt.

Umræða um varnir Íslands og hvernig þeim verður best komið við er jafngömul lýðveldissögunni. Velta ríkjandi hugmyndir jafnan á óróleikanum í veröldinni.

Í yfirlitsgrein Guðna Th. Jóhannessonar, sem birtist í Herðubreið árið 2014, varpar sagnfræðingurinn, sem nú er forseti Íslendinga, nokkru ljósi á sögulega punkta í þessum efnum.

Í greininni kemur fram að árið 1962 voru Almannavarnir ríkisins stofnaðar og þeim var upphaflega ætlað að skipuleggja varnir og viðbrögð við hernaðarvá þótt þær hafi annað hlutverk í dag.

Að hluta áttu Almannavarnir að „fylla upp í það skarð í innri vörnum landsins sem hlaust af því að hér var ekkert heimavarnarlið, þjóðvarnarlið eða varalögregla“.

Lögin um almannavarnir sögðu það „borgaralega skyldu“ allra landsmanna á aldrinum 18 til 65 ára að gegna endurgjaldslaust starfi í þágu almannavarna á stríðstímum eftir nánari fyrirmælum lögreglustjóra og að óheimilt væri að hverfa af vettvangi án leyfis.

Þetta minnir ögn á hlutskipti Úkraínumanna sem nú berjast til dauða. Er skemmst að minnast frásagnar Ívans, sem Fréttablaðið ræddi við í þorpinu Medyka, rétt áður en hann gekk yfir landamærin frá Póllandi til Úkraínu í lok mars þessa árs, bissnessmaður á sextugsaldri sem hafði auðgast í viðskiptum í Ástralíu.

„Ég er að gera skyldu mína,“ sagði Ívan og sagðist ekki hræðast rauðan dauðann.

Guðni segir að lögin um Almannavarnir ríkisins hafi notið frekar lítils stuðnings í samfélaginu. Í Þjóðviljann var skrifað 1967 að lögin bæru keim af herskyldu sem mönnum geðjaðist ekki. Lögum um almannavarnir var breytt þannig að þær tækju til varna við náttúruhamförum.

Svo stiklað sé á stóru í sögu lýðveldisins vildi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að Íslendingar stofnuðu eigin varnarsveitir sem gætu með tíð og tíma tekið að einhverju leyti við hlutverki Bandaríkjahers hér á landi. Taldi Bjarni að styðjast mætti við Landhelgisgæsluna við uppbyggingu slíks liðs.

„Að mati Bjarna gat Ísland vart talist sjálfstætt ríki ef það tæki ekki beinan þátt í eigin vörnum og „dvöl erlends herliðs á Íslandi til langframa væri að nokkru leyti niðurlægjandi,“ bendir Guðni á.

Síðan hafa reglulega blossað upp umræður um her eða ekki. Árið 2001 var ráðist á Tvíbura­turnana. Mátti þá halda fram að Ísland væri veikasti hlekkurinn í keðju Atlantshafsbandalagsríkjanna, að því er kemur fram í grein Guðna. Hugmyndir um varalögreglu eða annars konar fastalið blossuðu upp. Við breytingu á lögreglulögum sumarið 1996 höfðu eldri ákvæði um varalögreglu verið felld niður.

Vorið 2003 varð Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra. Hann var sömu skoðunar og faðir hans Bjarni hafði verið á sinni tíð; að Íslendingar ættu að efla eigin varnir eftir bestu getu.

Björn hafði reyndar snemma árs 1995 í embætti menntamálaráðherra vakið máls á nauðsyn þess að stofna þúsund manna her. Á Íslandi ætti að vera 500 til 1.000 manna lið undir vopnum sem sæi síðan um að þjálfa fjölmennara varalið.

Þær sveitir gætu eflt öryggi „á lykilstöðum á landinu án þess að kveðja þyrfti til liðsauka frá Bandaríkjunum og einnig verið til stuðnings í hamförum,“ eins og kemur fram í grein Guðna.

Óskir Björns Bjarnasonar um íslenskt þjóðvarðlið eða heimavarnarsveitir fengu ekki hljómgrunn innan þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Ameríski herinn hvarf af landinu árið 2006 og ári síðar kynnti Björn hugmyndir um 240 manna launað varalið lögreglu og almannavarna.

Liðsmennirnir skyldu koma úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögregluþjóna. Össur Skarphéðinsson, þá þingflokksformaður Samfylkingarinnar, talaði um „tindátaleik fyrir fullorðna“.

Ef saga landsins er skoðuð hafa þeir sem hallast til hægri jafnan haft meiri áhuga á her og vörnum hér á landi en vinstrimenn. Gildir einu hvort um ræðir íslenskt herlið eða erlent. Áslaug Arna hefur með ummælum sínum, um að ekki sé hægt að útiloka herstöð að nýju á landinu, hent gömlum bolta á loft.