Vísinda­ráð Al­manna­varna mun funda í dag vegna stöðunnar í Gríms­vötnum. Mælingar benda til að jökul­hlaup verði á næstu vikum eða mánuðum og mun því lík­lega fylgja eld­gos. Kviku­þrýstingur hefur aukist í eld­stöðinni og mældist brenni­steins­díoxíð við Gríms­vötn í gríðar­legu magni fyrir skömmu síðan.

Eld­stöðin gaus síðast árið 2011 og þar áður árið 2008. Á virkni­tíma­bilum líða vana­lega um átta ár á milli gosa í Gríms­vötnum, segir jarð­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands í sam­tali við Frétta­blaðið. Gosin koma nánast alltaf í kjöl­far jökul­hlaupa en nú er út­lit fyrir að stutt sé í jökul­hlaup.

Næstu dagar, vikur eða mánuðir

Vatns­borð í Gríms­vötnum stendur nú fremur hátt og segir jarð­fræðingur að ó­ljóst sé hve­nær byrji að leka úr þeim. Það gæti gerst þess vegna eftir nokkra daga en í kjöl­farið myndi koma jökul­hlaup. Á meðan er kviku­þrýstingur hár í kviku­hólfinu undir öskjunni og því verður að gera ráð fyrir þeim mögu­leika að eld­gos brjótist út í lok jökul­hlaups. Það er þó ekki víst að jökul­hlaupi fylgi eld­gos eða þá að það kæmi beint í kjöl­farið. Síðast þegar gaus leið til að mynda hálft ár á milli jökul­hlaups og gossins.

Sér­fræðingur Veður­stofunnar við gass­mælingar í Gríms­vötnum. Aldrei hefur brenni­steins­díoxíð mælst í svo miklu magni í eld­stöð án þess að gos sé í gangi.
Veðurstofa Íslands

Starfs­menn Veður­stofunnar fóru í ferð á svæðið fyrir um tveimur vikum til að mæla gas í loftinu. Nærri þeim stað þar sem gaus árin 2011 og 2004 mældist mikið magn brenni­steins­díoxíðs í loftinu. Þetta var í fyrsta sinn sem brenni­steins­díoxíð í svo miklu magni mælist í eld­stöð á Ís­landi án þess að eld­gos sé í gangi. Þetta er því vís­bending um grunn­stæða kviku.

Starfs­menn veður­stofunnar og fræði­menn úr Há­skóla Ís­lands munu á eftir funda með Al­manna­vörnum til að fara yfir stöðuna. Fundurinn hefst klukkan 14 í dag.