Ein­hver magnaðasti staður á jörðinni er Askja í Dyngju­fjöllum, skammt norðan Vatna­jökuls. Undir þessari risa­stóru megin­eld­stöð er kviku­hólf og hefur mið­svæði hennar sigið þannig að úr lofti líkist Askja risa­gíg. Syðst varð síðan frekara land­sig eftir eld­gos árið 1875 og myndaðist þá næst­dýpsta vatn landsins, Öskju­vatn, sem er 220 metra djúpt og 11 fer­kíló­metrar að stærð. Úr ná­lægum eld­gíg, Víti, barst í þessum ham­förum aska til annarra landa en þó mest yfir Austur­land, sem ýtti undir fólks­flutninga þaðan til Vestur­heims.

Í Öskju eru náttúru­öflin stöðugt að verki og eld­gosin fjöl­mörg, síðast í Vikra­borgun árið 1961. Í öðru gosi árið 1926 varð til eyjan Askur. Nafnið er vel til fundið því í nor­rænni goða­fræði var askur Ygg­drasils lífsins tré og stóð í miðju flatrar jarð­kringlu sem um­lukin var hafi (blá­tært Öskju­vatn), en utan um hana lá einnig Mið­garðs­ormur (Dyngju­fjöll) og beit í skottið á sér. Í Öskju, á miðju há­lendi Ís­lands, ber því sjálft al­mættið fyrir sjónir.

Páll Skúla­son heim­spekingur lýsti hug­hrifum sínum þannig: „Þegar maður kynnist slíkri ver­öld er maður kominn á leiðar­enda. Kominn í snertingu við veru­leikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir full­kominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.“ Hann hélt á­fram: „Í Öskju eru óræð öfl að verki; öfl náttúrunnar sem geta brotist út hve­nær sem er og valdið mönnunum þungum bú­sifjum.“

Þarna hitti Páll naglann á höfuðið, því tæpum ára­tug eftir að hann setti hug­leiðingar sínar á blað varð eitt stærsta berg­hlaup á sögu­legum tíma á Ís­landi, þegar risa­spilda hrundi úr Suður­botnum Dyngju­fjalla og niður í Öskju­vatn. Kom það af stað allt að 30 metra hárri flóð­bylgju í vatninu sem skolaðist upp á bakkana í kringum vatnið, meðal annars ofan í Víti. Annars ríkir í Öskju full­komin ör­æfa­kyrrð og orð heim­spekingsins hitta aftur beint í mark: „Askja táknar ein­fald­lega jörðina sjálfa, hún er jörðin eins og hún var, er og verður, á meðan hún heldur á­fram hring­sóli sínu um himin­geiminn.“

Frá Vikra­borgum í Öskju er að­eins 35 mínútna gangur inn að Öskju­vatni, en einnig má ganga nokkurra tíma leið vestur yfir Dyngju­fjöll frá Dreka­gili og fæst þá ó­við­jafnan­legt út­sýni yfir Öskju. Sprækt göngu­fólk getur síðan arkað 34 kíló­metra leið um­hverfis Öskju­vatn frá Dreka­gili á löngum göngu­degi, eða 25 kíló­metra hring frá Vikra­borgum. Slík ganga er krefjandi verk­efni – enda gengið um­hverfis sjálft al­mættið.

Öskjuvatn og Víti eru ómótstæðileg tvenna, þótt ólík séu.
Mynd/ÓMG
Eldgígurinn Víti er við norðurhluta Öskjuvatns og þar er hægt að baða sig. Myndin er tekin daginn eftir berghrunið mikla.
Mynd/ÓMB