Einhver magnaðasti staður á jörðinni er Askja í Dyngjufjöllum, skammt norðan Vatnajökuls. Undir þessari risastóru megineldstöð er kvikuhólf og hefur miðsvæði hennar sigið þannig að úr lofti líkist Askja risagíg. Syðst varð síðan frekara landsig eftir eldgos árið 1875 og myndaðist þá næstdýpsta vatn landsins, Öskjuvatn, sem er 220 metra djúpt og 11 ferkílómetrar að stærð. Úr nálægum eldgíg, Víti, barst í þessum hamförum aska til annarra landa en þó mest yfir Austurland, sem ýtti undir fólksflutninga þaðan til Vesturheims.
Í Öskju eru náttúruöflin stöðugt að verki og eldgosin fjölmörg, síðast í Vikraborgun árið 1961. Í öðru gosi árið 1926 varð til eyjan Askur. Nafnið er vel til fundið því í norrænni goðafræði var askur Yggdrasils lífsins tré og stóð í miðju flatrar jarðkringlu sem umlukin var hafi (blátært Öskjuvatn), en utan um hana lá einnig Miðgarðsormur (Dyngjufjöll) og beit í skottið á sér. Í Öskju, á miðju hálendi Íslands, ber því sjálft almættið fyrir sjónir.
Páll Skúlason heimspekingur lýsti hughrifum sínum þannig: „Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.“ Hann hélt áfram: „Í Öskju eru óræð öfl að verki; öfl náttúrunnar sem geta brotist út hvenær sem er og valdið mönnunum þungum búsifjum.“
Þarna hitti Páll naglann á höfuðið, því tæpum áratug eftir að hann setti hugleiðingar sínar á blað varð eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, þegar risaspilda hrundi úr Suðurbotnum Dyngjufjalla og niður í Öskjuvatn. Kom það af stað allt að 30 metra hárri flóðbylgju í vatninu sem skolaðist upp á bakkana í kringum vatnið, meðal annars ofan í Víti. Annars ríkir í Öskju fullkomin öræfakyrrð og orð heimspekingsins hitta aftur beint í mark: „Askja táknar einfaldlega jörðina sjálfa, hún er jörðin eins og hún var, er og verður, á meðan hún heldur áfram hringsóli sínu um himingeiminn.“
Frá Vikraborgum í Öskju er aðeins 35 mínútna gangur inn að Öskjuvatni, en einnig má ganga nokkurra tíma leið vestur yfir Dyngjufjöll frá Drekagili og fæst þá óviðjafnanlegt útsýni yfir Öskju. Sprækt göngufólk getur síðan arkað 34 kílómetra leið umhverfis Öskjuvatn frá Drekagili á löngum göngudegi, eða 25 kílómetra hring frá Vikraborgum. Slík ganga er krefjandi verkefni – enda gengið umhverfis sjálft almættið.

