„Það sem er alvarlegt er að menn hafa beinlínis logið að almenningi í svörum sínum við ákalli okkar um úrbætur,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn (SÁS).

Alma fékk nýlega afhent gögn frá dómsmálaráðuneytinu sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál skyldaði ráðuneytið til að veita samtökunum aðgang að, eftir að beiðni um gögnin hafði verið neitað í mars.

Um er að ræða gögn sem borist hafa ráðuneytinu frá rekstrar­aðilum spilakassa hérlendis, er varða úrbætur og spilakort. Íslandsspil, sem er í eigu Rauða krossins og Landsbjargar, og Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ), fara með rekstur spilakassa á Íslandi.

Gögnin innihalda til að mynda minnisblað frá HHÍ til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, bréf HHÍ til innanríkisráðuneytisins og þrjú bréf frá Íslandsspilum til innanríkisráðuneytisins og innanríkisráðherra ásamt minnisblaði. Gögnin eru frá árunum 2010-2013.

„Í rauninni staðfesta þessi gögn það sem við höfum haldið fram,“ segir Alma. „Að rekstraraðilar spilakassa, sama hvort að það eru Íslandsspil eða Happdrætti Háskóla Íslands, hafa hvergi í opinberri umræðu eða formlega talað fyrir nokkrum úrbótum á rekstri spilakassa eða í spilakassaumhverfinu eins og það leggur sig, þrátt fyrir að hafa sagt annað,“ bætir Alma við.

Með staðhæfingunni vísar Alma til þess að Þór Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Landsbjargar, hafi sagt í viðtali á Bylgjunni 15. maí 2020 og 17. febrúar 2021, að Landsbjörg hafi verið í samtali við dómsmálaráðuneytið varðandi úrbætur á spilakassamarkaði í á annan áratug. Þar hafi Þór meðal annars rætt um tillögu á notkun svokallaðra spilakorta að norrænni fyrirmynd.

Alma segi að í gögnunum, sem Fréttablaðið hefur einnig undir höndum, sé hvergi minnst á tillögur að úrbótum eða á spilakort af hálfu Landsbjargar. Einu breytingarnar sem um sé rætt í gögnunum, séu breytingar sem auki fjárhagslegan ávinning Landsbjargar af rekstri kassanna. „Þetta eru úrbætur sem lúta að því að þau geti grætt meiri peninga á spilafíklum,“ segir Alma.

Í bréfi til innanríkisráðherra, sem dagsett er 12. júní 2012, óska Íslandsspil eftir heimild til samtenginga á söfnunarkössum sínum. Í bréfi dagsettu 14. mars 2013 er óskað eftir heimild til að hækka vinninga í kössum Íslandsspila og til að hækka verð á hverjum leik. Sama ár óska Íslandsspil eftir lagabreytingum sem feli í sér að þeim sé heimilt að selja happdrættismiða á netinu.

Allar þessar aðgerðir segir Alma lúta að því að gera spilakassa enn hættulegri en þeir séu nú þegar. „Netspilun, samtenging kassa sem leiðir til hærri vinninga og hækkun á verði hvers leiks, eru ekki úrbætur á spilamarkaði. Það er grafalvarlegt mál og í rauninni er verið að óska eftir því að gera kassana enn hættulegri en þeir eru.“

Við vinnslu fréttarinnar hafði Fréttablaðið samband við Þór Þorsteinsson sem vildi ekki tjá sig um málið. Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segist geta staðfest það að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi rætt „þessi mál á fundum sínum við ráðuneytið.“

Í skriflegu svari Kristjáns við fyrirspurn Fréttablaðsins segir: „Félagið sjálft hefur ekki verið í bréfaskriftum við ráðuneytið, heldur er það gert á vettvangi stjórnar Íslandsspila þar sem við eigum tvo fulltrúa.“