Í dag má búast við skúri eða slydduél allvíða um land. Vætu er spáð um landið sunnanvert en úrkomuminna fyrir norðan.

Austlæg og norðaustlæg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu og fremur svalt í veðri, að því er fram kemur í veðurspá frá Veðurstofu Íslands.

Á morgun verður austan og norðaustan átt tíu til átján metrar á sekúndu. Sunnantil rignir en sums staðar verða skúrir eða él fyrir norðan. Annað kvöld fer vindur víða að aukast og einnig verður úrkomumeira um landið austanvert.

Hiti verður á bilinu tvö til níu stig, mildast syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga. Hitastig helst svipað fram á fimmtudag.

Á sunnudag má búast við norðaustanhvassviðri á Vestfjörðum og minna annars staðar. Víða verður rigning á landinu, en sums staðar slydda eða snjókoma til fjalla. Hiti verður á bilinu tvö til níu stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir fremur hæga austlæga eða breytilega átt. Áfram rignir á köflum, einkum suðaustantil. Hiti verður á bilinu þrjú til átta stig að degi til.