Öll börn sem sóttu frístundaheimilið Krakkakot á föstudag hafa verið send í sóttkví. Hið sama gildir um starfsmenn frístundaheimilisins sem er fyrir krakka í 1. til 4. bekk Hvassaleitisskóla í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tölvupósti til foreldra og staðfestir Jenný Huyen Andradóttir, forstöðukona Krakkakots, þetta í samtali við Fréttablaðið. Hún vildi ekki tjá sig frekar um málið og ekki hefur náðst í skólastjóra Hvassaleitisskóla að svo stöddu.

Áður hafði verið greint frá því að allur 4. bekkur skólans hafi verið sendur í sóttkví eftir að tveir starfsmenn greindust með COVID-19.

Í umræddri tilkynningu til foreldra kemur fram að tekin hafi verið ákvörðun um það í fyrradag setja börn sem sóttu Krakkakot í úrvinnslusóttkví á meðan unnið væri að smitrakningu COVID-19 tilfellis.

Eftir að henni lauk bárust þau fyrirmæli frá smitrakningarteymi almannavarna og landlæknis að allir sem hafi verið í Krakkakoti föstudaginn 18. september þyrftu að fara í sóttkví frá 20. til og með 25. september þar sem þau hafi verið útsett fyrir smiti.