Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, segir að lög­reglan hafi í meiri mæli en áður af­skipti af fólki vegna allskyns mála, og verði þess áskynja síðar að viðkomandi áttu að vera í sóttkví.

„Við höfum undan­farið haft af­skipti af fólki vegna annarra mála og þá hefur komið í ljós að það eigi að vera í sótt­kví. Við getum kallað þetta góð­kunningja lög­reglunnar og þegar við höfum haft af þeim af­skipti þá eiga þeir að vera í sótt­kví,“ segir Víðir.

„Það eru nokkur svo­leiðis mál sem hafa komið upp,“ segir Víðir og bætir við að þetta sé allt­of al­gengt.

„Nú eru lög­reglu­menn að hafa mikinn vara á sér þegar þeir eru í vinnu. Þeir eru miklu meira með sótt­varna­búnað en fyrir nokkrum vikum síðan. Menn hafa alltaf verið varir um sig en við erum sér­stak­lega varir um okkur núna að gæta allra sótt­varna og full á­stæða til,“ segir Víðir.

Þetta á hins vegar ekki bara við um góð­kunningja lög­reglunnar, segir Víðir heldur eru fleiri almennt að brjóta sótt­kví núna en í vor. „Það eru fleiri mál sem við erum að hafa af­skipti af,“ segir Víðir.

Ganga harðar fram þegar um ásetning er að ræða

Spurður um hvort lög­reglan hafi verið að sekta meira vegna slíkra brota, segir Víðir að það sé gengið hart að þeim sem brjóta sótt­kvína af á­setningi.

„Við sektum alltaf þegar á­setningurinn er aug­ljós. Þetta er tví­skipt, annars vegareru þeir sem vita ekki betur eða átta sig ekki alveg á hlutunum, vilja vanda sig og taka til­mælum. Svo eru aðrir með fullan á­setning að virða ekki sótt­kvína. Þá göngum við harðar fram í sektum gagn­vart þeim,“ segir Víðir.

Spurður um hvort lög­reglan hefur þurft að hafa mikil af­skipti af veitinga­stöðum undan­farið, segir Víðir svo ekki vera. Hann segir að sam­starfið við veitinga­staði í bænum hefur gengið mjög vel.

Það sama má segja um eftir­lit lög­reglunnar með líkams­ræktar­stöðvum og segir Víðir að sínu fólki sé almennt vel tekið þegar þau mæta í eftirlit.

„Við höfum verið fara víða um og hitta fólk. Við höfum lagt mikla á­herslu á við okkar fólk sem er að fara að vera með allar reglur á hreinu og geta leið­beint fólki ef menn eru að mis­stíga sig. Þannig það sé hægt að halda starf­seminni á­fram innan þeirra ramma sem er. Það hefur gengið vel og okkar fólki mjög vel tekið,“ segir Víðir að lokum.