„Við ætluðum að fara til Þýskalands en farið er var of dýrt,“ segir Amin Mohammadi sem kom til Íslands fyrir um hálfu ári með bræðrum sínum tveimur. Þeir eru frá Afganistan og hafa verið á flótta í sex ár. Þeir ákváðu að flýja með móður sinni fyrir sex árum eftir að Talíbanar hirtu föður þeirra af götunni þegar hann var úti að hjóla með yngsta bróður hans. Hann sáu þeir aldrei aftur.

„Smyglari á Ítalíu sagði við okkur að það væri ódýrt flug tvisvar í viku til Íslands. Ég spurði hvort við gætum sótt þar um alþjóðlega vernd og hann lofaði því að við gætum það,“ segir Amin en bræðurnir hafa nú allir fengið neitun frá Útlendingastofnun og kærunefnd Útlendingamála. Þeim hefur verið tilkynnt af stoðdeild Ríkislögreglustjóra að þeim verði fylgt til Ítalíu þar sem íslensk stjórnvöld eru fullviss um að bræðurnir geti allir sótt um alþjóðlega vernd, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Sjíta múslimar af þjóðarbroti Hasara

Amin er 22 ára, Amir bróðir hans er 20 ára og sá yngsti, Omid er 19 ára. Bræðurnir eru sjíta múslímar af þjóðarbroti Hasara sem sætt hafi mismunun og ofsóknum í Afganistan.

„Allt frá því að ég man eftir mér höfum við upplifað mismunun en það jókst síðustu árin áður en við fórum. Talíbanarnir tóku pabba okkar reglulega í nokkra daga og pyntuðu hann. Hann var kennari og þeir vildu fá hann til liðs við sig,“ útskýrir Amin.

„Hann var einn dag úti að hjóla með yngsta bróður mínum og að kaupa inn. Talíbanarnir keyrðu á bróðir minn og tóku föður okkar. Við sáum hann aldrei aftur og þurftum eftir það að flýja með móður okkar.“

Hann segir að ferð þeirra fjögurra hafi hafist í Pakistan en að þau hafi ekki getað verið þar því að það væri sama staðan þar fyrir Hasara og að þau hafi því farið til Íran. Þar hafi þeim verið sagt að þau yrðu send aftur til Afganistan ef þau færu ekki og fóru því þaðan til Tyrklands.

„Við þurftum að koma okkur þaðan með ólöglegum leiðum og þegar við vorum að fara yfir landamærin misstum við samband við móður okkar. Lögreglan kom og tók mömmu og ég tók bræður mína og við náðum að flýja,“ segir Amin.

Drengirnir eru meðör á höndum eftir árekstur við Talíbana og ofbeldi smyglara.
Fréttablaðið/Eyþór

Lofaði að koma mömmu þeirra líka yfir

Hann segir að smyglarinn hafi lofað að koma henni yfir landamærin tveimur dögum seinna en að hann hafi logið. Móðir þeirra fékk að enda að vera áfram í Íran vegna þess að hún var ein á ferð en bræðurnir urðu áfram í Tyrklandi. Þeir hittu hana aldrei aftur en hún lést í Íran eftir alvarleg veikindi.

„Smyglararnir fóru með okkur í hús þar sem við héldum að við mundum fá að borða. En þeir héldu okkur þar í gíslingu gegn því að fá meiri pening. Þeir pyntuðu okkur með því að brenna okkur með sígarettum og beittu okkur ofbeldi. Þegar við loks náðum að flýja þá höfðum við engan stað að fara á og þurftum að sofa úti og á lestarstöðvum.“

Amin segir að þeir hafi eftir það farið til Ankara þar sem þeim hafi verið sagt að ekki væri pláss fyrir fleiri flóttamenn og fóru því til Zacharia þar sem þeir fengu pappíra sem gerðu þeim kleift að vera þar og vera ekki sendir aftur til Afganistan.

„Svo liðu árin en um leið og yngsti bróðir minn varð 18 ára þá var okkur tilkynnt að við yrðum sendir aftur til Afganistan og höfðum því um ekkert annað að velja en að flýja. Við neyddumst til að leita til smyglaranna aftur,“ segir Amin og minnist þess samt að sömu smyglarar pyntuðu þá við komuna til Tyrklands.

„En það var ekkert annað í boði,“ segir hann og að smyglarinn hafi útskýrt að það væri ekkert annað í boði en að fara sjóleiðis til Ítalíu. Þeir myndu fara í bát með mesta lagi 50 öðrum og yrðu þrjá til fjóra daga á leiðinni og myndu fá bæði vatn og að borða.

„Við treystum honum, það var ekkert annað í boði. Við héldum því af stað í gegnum skóg og fjalllendi til að komast að höfninni og þegar þangað var loks komið sáum við hver staðreyndin var,“ segir Amin og að ekkert af því sem að smyglarinn sagði hafi verið rétt.

180 um borð í sjö daga

„Ég veit ekki hvað ætti að kalla þetta, en það er ekki bátur. Þetta voru spýtur og járn sem hélt því saman. Þú myndir örugglega ekki finna þetta á safni,“ segir Amin og að alls hafi 180 manns farið um borð. Karlar, konur og börn.

„Það var enginn matur og ekkert vatn og það sem við vorum með kláruðum við á þremur dögum. Ferðin tók alls sjö daga og á þeim síðasta var stormur og mjög háar öldur. Báturinn brotnaði og það var vatn í bátnum. Hann var að sökkva og við misstum alla von. Við fórum í björgunarvestin og biðum þess að lenda í vatninu og deyja þegar allt í einu einn í bátnum öskraði að hann heyrði í þyrlu.“

Hann segir að í þyrlunni hafi ítalska lögreglan hrópað að þeir gætu ekki aðstoðað þau því báturinn væri ekki innan ítalskrar lögsögu. Þau hófu því ferðina en það tók þau klukkutíma að komast einn kílómetra og þá voru þau innan lögsögunnar. Vegna öldugangsins gekk illa að komast að sökkvandi bátnum en eftir að tveimur stórum skipum var stillt upp í kringum þá var hægt að sigla til þeirra og bjarga þeim.

Eftir það voru þeir fluttir í miðstöð fyrir flóttafólk þar sem tekin voru af þeim fingraför. Amin segir að hann hafi ítrekað spurt hvort að það væri til að vinna umsókn þeirra fyrir alþjóðlega vernd en alltaf fengið neitun. Þeir voru eftir það fluttir í einangrun vegna Covid-19 og eftir tíu daga kom lögreglan með pappíra sem þeir áttu að skrifa undir og þeim sagt að yfirgefa landið innan sjö daga ellegar yrði þeim vísað aftur til Afganistan eða þeir myndu fá sekt upp á 20 þúsund evrur.

„Við neyddumst því enn á ný til að flýja,“ segir Amin og að þeir hafi reynt að fara til Frakklands með lest en voru stöðvaðir af lögreglu. Eftir það reyndu þeir að fara til Sviss en það sama gerðist. Þeir ætluðu svo á endanum að ganga frá Ítalíu til Frakklands en týndust í skógi á leiðinni.

Bræðurnir segjast ekki vilja vera byrði á samfélagið. Þeir vilji bara fá tækifæri til að taka þátt í því.
Fréttablaðið/Eyþór

Enn á til smyglara

Þeir enduðu á því að þurfa enn og aftur að leita til smyglara sem sagðist geta hjálpað þeim að komast til Þýskalands en eftir að hafa rætt við hann um verð sáu þeir að það var ekki möguleiki vegna þess hve kostnaðarsamt það yrði. Þá bauð hann þeim að fara til Íslands. Það væri ódýrara.

„Ég spurði hvort að við myndum geta sótt um hæli og alþjóðlega vernd og hann svaraði því játandi og því samþykktum við það. Við vissum ekkert um landið, hvernig menningin væri eða hvaða tungumál væri talað. Það var ekki endilega mikilvægt á þessum tímapunkti. Við vildum bara komast eitthvert þar sem það yrði komið fram við okkur eins og manneskjur. Því það er það sem við erum,“ segir Amin.

Hann segir að strax við komu hafi þeir sótt um alþjóðlega vernd en eins og áður kom fram fengið neitun frá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd Útlendingamála. Þeir bíða þess nú að fá að vita hvort að hægt verði að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan ákvörðun kærunefndar fer fyrir dómstóla og á lögmaður þeirra að fá svar við því öðru megin við helgina.

Alltaf þegar einhver gengur fram hjá þá verðum við hræddir um að lögreglan sé komin að sækja okkur.

Kvíðnir og lystarlausir

Á meðan bíða drengirnir á Ásbrú og vita ekki hvort lögreglan kemur í millitíðinni til að flytja þá til Ítalíu.

„Lögreglan bankaði á dyrnar hjá okkur á mánudag og lét okkur vita að við ættum að yfirgefa landið. Við vitum um marga sem hafa fengið neikvæða ákvörðun á undan okkur sem hafa enn ekki fengið sömu heimsókn frá lögreglu.

Amin segir að þeim líði illa og séu kvíðnir yfir ákvörðuninni. Þeir séu lystarlausir og sofi illa þrátt fyrir að hafa fengið kvíðastillandi lyf.

„Við erum inni á herbergi hjá okkur og alltaf þegar einhver gengur fram hjá verðum við hræddir um að lögreglan sé komin að sækja okkur. Okkur langar bara að fá að vera manneskjur og upplifa öryggi. Sumir halda að flóttafólk verði byrði á samfélagið og hagkerfið en það er ekki það sem við viljum. Við viljum taka þátt í samfélaginu og fá tækifæri til að búa einhvers staðar og vinna og fara í skóla. Dómsmálaráðherra sagði fyrir nokkrum dögum að það væri bara verið að senda fólk til baka sem er með vernd annars staðar, en við erum ekki með vernd neins staðar eða opna umsókn um það. Við erum með pappíra frá Ítalíu um hótun um að senda okkur til Afganistan eða sekta okkur.“

Amin útskýrir að frá því að þeir yfirgáfu Afganistan hefur staðan fyrir fólk af Hasara þjóðarbroti versnað mikið og óttast það mikið ef þeir verða sendir heim. Auk þess telur hann aðstæður á Ítalíu hafa versnað eftir að Giorgia Meloni tók við sem forsætisráðherra en hún hefur sjálf sagt að hún vilji takmarka komu fólks í gegnum Miðjarðarhafið og meðal kosningaloforða hennar var að senda fleiri sem þangað koma aftur síns heimaríkis og strangari reglur um útlendinga.

Eigið þið einhverja fjölskyldu í Afganistan?

„Nei, við eigum enga fjölskyldu neins staðar. Við erum bara þrír bræðurnir.“

Tveir skýrir úrskurðir frá Ítalíu

„Ég hef óskað eftir frestun réttaráhrifa og hef óskað eftir því að þeir fái að vera á landinu á meðan málið er tekið til meðferðar hjá dómstólum. Ég skilaði inn gögnum vegna þess í gær og við bíðum þess nú að heyra um það frá kærunefndinni,“ segir Sigurður Árnason lögmaður bræðranna.

Hann útskýrir að í raun hafi bræðurnir fengið tvo mismunandi úrskurði á Ítalíu. Annar þeirra segir að það eigi að brottvísa þeim til Afganistan og vegna þeirrar ákvörðunar eigi þeir að fara í svokallaða brottflutningsmiðstöð fyrir fólk sem á að fara til heimaríkis.

Miðstöðvarnar eru fullar, en þeir eiga samt að fara

„En það kemur fram í úrskurðinum þeirra að miðstöðvarnar eru fullar, en þeir eiga samt að fara.“

Hinn úrskurðurinn segir að þeir verði að yfirgefa landið innan sjö daga og séu með endurkomubann í þrjú ár, sem gildir um allt Schengen-svæðið. Ef þeir koma aftur eiga þeir yfir höfði sér fangelsisvist og sekt upp á tuttugu þúsund evrur.

Sigurður telur að bæði Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála hafi ekki rannsakað nægilega vel hvaða áhrif úrskurðirnir hafa á möguleika drengjanna á Ítalíu og vill að það verði gert. Auk þess segir hann dæmi um að fólk í þeirra stöðu hafi farið aftur, með þau skilaboð að þau geti sótt um vernd, en svo hafi það ekki verið raunin.

„Það sem er svo óvanalegt við þetta mál er að þeir eru með þessa úrskurði og þannig með sönnun en eru auk þess í viðkvæmri stöðu í Afganistan og óttast um stöðu sína þar,“ segir Sigurður sem óttast að þeir fái ekki að sækja um hæli þegar þeir koma aftur til Ítalíu verðir þeir sendir þangað aftur.

„Ég óttast að þeir verði meðhöndlaðir sem einstaklingar sem koma ólöglega og fái ekki að sækja um hæli. Það er veruleg hætta, að mínu mati, að þeir verði meðhöndlaðir þannig aftur.“

Hafin er undirskriftasöfnun á vefsíðunni Change.org vegna málsins, en þar er Útlendingastofnun hvött til að draga ákvörðun sína til baka.