„Það er alltaf viss hluti af fólki sem fellur fyrir netsvindli, ef svo væri ekki þá væri það ekki til,“ segir Ragnar Sigurðsson, sérfræðingur í netöryggismálum og einn höfunda Cybersecurity For Dumm­ies, eða Netöryggi fyrir bjána. Ragnar er einnig framkvæmdastjóri alþjóðlega netöryggisfyrirtækisins AwareGO sem hefur gefið bókina út frítt á vefnum. Meðhöfundur bókarinnar er Maria Bada, doktor við Cambridge-háskóla, en hún tók þátt í að vinna að úttekt Oxford-háskóla á stöðu netöryggis í íslensku samfélagi fyrir íslensk stjórnvöld fyrir nokkrum árum.

Netöryggismál er svið þar sem fólk þarf ekki að skammast sín fyrir að vera bjáni. „Nei, það er einmitt málið,“ segir Ragnar og hlær. „Það þarf að hafa netöryggi ofarlega í huga nú þegar það er orðið nýja normið að vinna heima, þar er minni vernd en innan veggja fyrirtækisins.“

Netsvindl hefur færst í aukana að undanförnu, bæði hér á landi sem og úti í heimi. Nýverið vakti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu athygli á því að viðmót Ríkisskattstjóra hafði verið notað til að komast yfir kortaupplýsingar. Einnig eru dæmi um að viðmót Borgunar og Póstsins hafi verið misnotað í sama tilgangi.

book-minnkud.png

„Ég ráðlegg öllum að vera með góða vírusvörn og að fyrirtæki séu með eldvegg. Það sem skiptir líka máli er að öryggisvitund fólks sé meiri en hún er. Það má ekki treysta að tölvudeild fyrirtækisins sjái um allt, þetta þarf að vera samstarfsverkefni. Svo þarf að passa sig á hvað er smellt á,“ segir Ragnar. Leiðir tölvuþrjóta eru margs konar. „Það gæti verið viðhengi í tölvupósti sem setur vírus í tölvuna þína, það gæti verið hlekkur á vefsíðu sem reynir að sannfæra þig um að gefa upp kreditkortanúmer. Það eru líka mörg dæmi um síður sem hvetja þig til að fjárfesta en það er ekkert þar að baki.“

AwareGO lenti sjálft í því í síðustu viku að reynt var að hafa fé af fyrirtækinu. „Fjármálastjórinn okkar fékk póst sem átti að vera frá mér, hann var á sæmilega góðri íslensku en það var ýmislegt sem gaf til kynna að eitthvað bogið væri þar að baki,“ segir Ragnar. Segir hann að þýðingarvélar séu orðnar mjög góðar í íslensku þegar um er að ræða stutt skilaboð. „Þessi stóru svik eru mest erlendis, en í sumum tilfellum grunar mann að þar sé einhver að baki sem tali íslensku.“

Eins og áður segir er bókin, sem er á ensku, aðgengileg öllum á vefnum, er hægt að nálgast hana með því að smella hér.