„Réttur barna til að tjá sig er mjög takmarkaður. Það er alltaf bara mamma sem fer á fundi með kennurum,“ segir Eiður Axelsson tæplega fjórtán ára piltur blaðamanni Fréttablaðsins. 

Eiður hélt kraftmikla ræðu á málþingi Öryrkjabandalags Íslands um skóla án aðgreiningar á föstudaginn þar sem hann sagði frá reynslu sinni af einelti í skólakerfinu og hvað mætti betur fara. 

Í hjartaþræðingu tveggja daga gamall

Saga Eiðs er mjög merkileg en hann fæddist sex vikum fyrir tímann og fór til Boston aðeins tveggja daga gamall í hjartaþræðingu. Eiður er greindur með CP, eða Cerebral Palsy, sem algengasta tegund hreyfihamlana meðal barna. Hann var síðar greindur á einhverfurófi en honum finnst einhverfan gagnast sér mjög vel því hann veit ótrúlegustu hluti og fær áhuga á ótrúlegustu hlutum, eins og stjórnmálum.

„Að vera fatlað barn í grunnskóla er gaman, lærdómsríkt og einnig mjög krefjandi á köflum,“ sagði Eiður meðal annars í ræðunni, sem hann skrifaði með móður sinni. „Börnin eru fljót að sjá að það er eitthvað öðruvísi og spyrja mikið og stundum er svolítið erfitt að útskýra fötlun mína og þá sérstaklega þegar ég var að hefja mína skólagöngu.“ Eiður varð fyrir einelti um tíma en segir það fremur hafa verið fyrir sakir þekkingarleysis fremur en illsku. 

Daglegt brauð að vera sparkað niður stiga 

„Til dæmis þá varð það daglegt brauð hjá mér að vera sparkaður niður í stiganum á leiðinni út í frímínútur og líka í íþróttum, skólaíþróttir voru ein mesta píning sem fyrir mig í skólanum og ég reyndi oft að komast hjá því að fara í íþróttir því ég hafði ekkert uppúr því.“ Eiður var því færður í minni bekk með öðrum börnum sem höfðu verið lögð í einelti eða glímdu við hegðunarvanda. Að mati hans var það mjög gaman í fyrstu en svo fannst honum hann vera að einangrast því hann hitti hina krakkana mjög lítið. Stundum var hann látinn borða inni í bekknum í stað þess að hitta hina krakkana í matsalnum. Það vanti því millistig milli bekkjarinns sem Eiður var færður í, með átta börnum og hins, með fjörutíu og átta börnum.

Eiði finnst þó að krakkarnir sem áður lögðu hann í einelti hefðu þroskast mikið og væru almennileg við hann í dag. Hann er með þeim í nokkrum kennslustundum. Eiður og móðir hans, Agnes Veronika, ítreka það einnig við blaðamann að kennarinn hans í grunnskólanum sé frábær og velferð hans sé í fyrirrúmi. „Ég hef mikla trú með að aukinni fræðslu um fatlanir mun baráttan skila sér gegn einelti og alltaf má gera betur.“

Óskaði eftir „Hraustum náungum“ til að moka snjó

Eiður er með puttann á púlsinum og fyrir Öskudaginn setti hann inn færslu á Facebook hóp íbúa í Grafarholtinu þar sem hann óskaði eftir því að „Hraustir náungar“ gætu séð um að moka stéttirnar til að auka öryggi fatlaðra ungmenna í sælgætis leiðangri. Aðspurður tjáði Eiður blaðamanni að snjófarg gæti eyðilagt öskudaginn fyrir þeim sem ekki hefðu fulla hreyfigetu.  „Það snjóaði svo mikið að fyrir fólk í hjólastól og svona skakklappa eins og mig, þá er svolítið erfitt að labba í svona djúpum snjó,“ segir hann og hlær. 

Eiður er ánægður með þá athygli sem blár apríl, mánuður til stuðnings einhverfu, hefur fengið en finnst ekki næg athygli vera á október, sem er mánuður til stuðnings CP. „Umræða um einhverfu er alltaf allt árið, en CP týnist og líkamlegar fatlanir týnast.“ 

Stefnir á þing 

Eiður er gallharður Sjálfstæðismaður og fylgist vel með þróun stjórnmála í landinu. Hann segist ekki vita hvaðan þessi áhugi kom en hann var átta ára þegar hann fór fyrst að fylgjast með stjórnvöldum, sem er eflaust meira en flestir geta sagt. „Ég þekki mikið af fólki sem er kannski tvítugt og þarf að ákveða sig fyrir hverjar kosningar og er ekkert að fylgjast með,“ segir Eiður sem getur ekki beðið eftir að fá kosningarétt eftir fjögur ár. 

Fjölskylda hans hefur staðið þétt við bakið á honum en hann kveður þau ekki deila eldheitum áhuga hans á stjórnmálum. Hann er líka með framtíðina vel kortlagða og stefnir í stjórnmálin. „Ég ætla að reyna að komast inn í lögfræði og komast svo inn á þing.“ 

Ræðu Eiðs má lesa í heild sinni hérna að neðan.