Ísland er á botni lista 26 OECD ríkja í greiningu tryggingafélagsins William Russell á geðheilbrigði. Ísland skorar 1,6 á kvarða sem nær upp í 10 en þar á eftir kemur Síle með 2,07 og Pólland með 3,8. Svíþjóð er efst á listanum með einkunnina 7,13 en þar á eftir kemur Þýskaland með 6,6 og Finnland 6,47.

Aðstæður til góðs geðheilbrigðis voru metnar út frá ýmsum þáttum. Þar á meðal útgjalda til geðheilbrigðismála, vinnutíma, grænna svæða og veðurfars. Ísland skorar lágt í öllum flokkum.

Þegar kemur að útgjöldum til geðheilbrigðismála er Frakkland efst á listanum. Þar er 15 prósentum af heildarútgjöldum til heilbrigðismála varið í geðheilbrigði. Norðmenn og Þjóðverjar koma á eftir en Ísland ver aðeins 5,7 prósentum í málaflokkinn.

Hollendingar og Svisslendingar hafa besta jafnvægið milli vinnu og frítíma. Aðeins Suður-Kóreumenn og Ísraelsmenn vinna meira en Íslendingar.

Ítalir eyða hins vegar mestum tíma í afþreyingu og hvíld, 16,5 tímum á dag. Íslendingar eyða 14,1 tíma sem er með því lægsta.

Finnar eru með flest græn svæði en afar fá eru á Íslandi. Það kemur heldur ekki á óvart að Ísland skorar mjög lágt veðurfarslega séð. Þar skora Brasilía og Ísrael hæst en Ísland er eitt af fimm köldustu löndunum og er með mestu úrkomuna.