Það má með sanni segja að nóg hafi verið að gera síðasta sólarhringinn í Hagavagninum sem opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi í gær. Á rúmum sólarhring hafa átta hundruð hamborgarar verið seldir, en sá síðasti fór klukkan fimm í dag.

„Það er búið að vera það brjálað að gera að klukkan rúmlega fimm þurftum við að loka sjoppunni því það er allt búið,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, einn aðstandenda staðarins í samtali við Fréttablaðið.

Ólafur Örn segir það ljúfsárt að þurfa að loka vagninum svo snemma en nýjar birgðir fást ekki fyrr en á mánudaginn og því verður staðurinn einnig lokaður á morgun. „Við erum alveg í skýjunum en það er ógeðslega leiðinlegt að geta ekki haft opið í kvöld, þetta er eiginlega ljúfsárt.“

Ólafur kveðst ekki vita hve margir hafa sótt staðinn síðastliðinn sólarhring en segir að minnsta kosti átta hundruð hamborgara hafa verið selda og staðurinn strax kominn með fastagesti. „Það kom einn maður hér tvisvar í gær og einu sinni í dag, þannig við erum strax komin með fastakúnna.“

Sú heppna, sem fékk síðasta hamborgarann, var Sandra Barilli, einn af þáttarstjórnendum hlaðvarpsins Slaygðu, sem segist ekki hafa gefið neinum með sér af síðasta borgaranum.

Hjónin Rakel Þórhallsdóttir og Jóhann Guðlaugsson festu kaup á vagninum, sem hefur verið eitt helsta tákn Vesturbæjarins í árabil, og reka hann með dyggri aðstoð frá Ólafi Erni og tónlistarmanninum Emmsjé Gauta.

Upphaflega stóð til að gera gamla vagninn upp en á endanum var ákveðið að rífa gamla vagninn og byggja nýjann, þegar í ljós kom að sá gamli var gjörónýtur.