Framlög til mennta- og menningarmála munu aukast um tæpa sex milljarða króna á næsta ári en þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2021 sem kynnt var í dag. Menntakerfið hefur verið eflt bæði á framhalds- og háskólastigi en gert er ráð fyrir fjölgun nemenda vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins.

Fjárveitingar til málefna sem falla undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka um 11 prósent milli ára og verða alls rúmlega 127 milljarðar króna á næsta ári. Af því fer um 51 milljarður til háskólastigsins og 38 milljarðar til framhaldsskólastigsins.

Frumvarpið sýni mikilvægi málaflokksins

„Fjárlagafrumvarpið sýnir glögglega mikilvægi mennta- og menningar og ég fagna þeim vilja sem birtist í auknum fjárveitingum til málaflokka ráðuneytisins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, um frumvarpið.

Hún segist vænta þess að ráðuneytið muni eiga gott samtal við þingið um tillögurnar sem liggja fyrir og segist Lilja vera sannfærð um að niðurstaðan verði góð. „Við þurfum á því að halda, því menntun og menning varða leiðina að bjartari framtíð okkar.“

Heildarfjárveitingar mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Framlög til menntamála

Áætlað er að þrír milljarðar fari til háskólastigsins. Þar af fara tveir milljarðar til Menntasjóðs námsmanna og Lánasjóðs íslenskra námsmanna, annars vegar þar sem tekið er mið af áætlunum vegna nýsamþykktra laga um sjóðinn og hins vegar til að mæta fjölgun nemenda vegna veirufaraldursins.

Einn milljarður fer til háskólastigsins í samræmi við stefnumörkun um að Ísland nái meðaltali OECD um fjármögnun háskólastigsins. Þá verður framlag til framhaldsskólastigsins aukið um 200 milljónir til að efla menntun.

Þar sem kostnaður við fjölgun nemenda lá ekki fyrir við gerð frumvarpsins er gert ráð fyrir að framlög verði endurmetin við 2. umræðu frumvarpsins þegar forsendur til að meta raunhækkunina liggja betur fyrir.

Framlög til menningarmála

Auk þess sem að aukning er í fjárveitingu til framhalds- og menntaskólastigsins mun fjárveiting ráðuneytisins til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála aukast. Heildargjöld málefnasviðsins eru áætluð rúmlega 17,5 milljarðar króna en útgjöldin hækka um 1,4 milljarða króna milli ára. Heildarframlag úr ríkissjóði er áætlað 15,9 milljarðar króna.

Framlög til menningarmála aukast um 2,4 milljarða króna í tengslum við fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal fer einn milljarður til menningar, lista og skapandi greina.

Helstu markmið í mennta- og menningarmálum

Markmið mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru margþætt en þau má nálgast í heild sinni í frumvarpinu. Hér fyrir neðan má sjá helstu markmiðin í málaflokkinum.

Menntamál:

 • Framhaldsskólastig= Að fjölga nemendum sem ljúka prófi á tilskildum tíma, hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi, og auka gæði menntunar í framhaldsskólum.
 • Háskólastig= Að auka gæði náms og námsumhverfis í háskólum, styrkja rannsóknarstarf og umgjörð þess, og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknastofnana í samfélaginu.
 • Leikskóla- og grunnskólastig = Að styrkja lestrarfærni grunnskólanemenda, styrkja færni grunnskólanemenda í stærðfræði og náttúrufræði, auka gæði menntunar í leiksskólum og grunnskólum, og að auka gæði námsgagna.
 • Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð a´skólastig = Efla gæði og framboð íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur til að auðvelda þeim virkni í samfélaginu og auðvelda fullorðnu fólki með stutta skólagöngu að afla sér menntunar og starfsréttinda.

Helstu markmið í menningarmálum

 • Safnamál = Að bæta aðgengi að og miðlun á menningu og listum, vernda menningararf þjóðarinnar með markvissari hætti, og efla rannsóknir og skráningu.
 • Menningarstofnanir = Að bæta aðgengi að og miðlun á menningu og listum til að fleiri landsmenn fái notið þeirra og að vernda menningararf þjóðarinnar með markvissari hætti.
 • Menningarsjóðir = Að efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu og að skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í listum og menningu.
 • Íþrótta- og æskulýðsmál = Að bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og að efla umgjörð og stuðning við afreksíþróttafólk.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru áætlaðar heildarfjárheimildir og heildarframlög úr ríkissjóði eftirfarandi:

Framhaldsskólastig:

 • Framhaldsskólar = 36,161 milljarðar
 • Tónlistarfræðsla = 585,8 milljónir
 • Vinnustaðanám og styrkir = 242,6 milljónir
 • Jöfnun námskostnaðar = 545,4 milljónir

Heildarfjárheimild = 37,535 milljarðar króna

Heildarframlög = 36,066 milljarðar króna

Útgjaldarammi framhaldsskólastigs.

Háskólastig:

 • Háskólar og rannsóknastarfsemi = 44,036 milljarðar
 • Stuðningur við námsmenn = 7,121 milljarðar

Heildarfjárheimild = 51,157 milljarðar króna

Heildarframlög = 40,472 milljarðar króna

Útgjaldarammi háskólastigs.

Önnur skólastig og stjórnsýsla menningar- og menntamála:

 • Leikskóla- og grunnskólastig = 498 milljónir
 • Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastigi = 1,959 milljarðar
 • Stjórnsýsla mennta- og menningarmála = 3,155 milljarðar

Heildarfjárheimild = 5,612 milljarðar króna

Heildarframlög = 4,766 milljarðar króna

Útgjaldarammi annarra skólastiga og stjórnsýslu menningar- og menntamála.

Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál:

 • Safnamál = 5,165 milljarðar
 • Menningarstofnanir = 5,903 milljarðar
 • Menningarsjóðir = 5,27 milljarðar
 • Íþrótta- og æskulýðsmál = 1,224 milljarðar

Heildarfjárheimild: 17,56 milljarðar króna

Heildarframlag: 15,906 milljarðar króna

Útgjaldarammi menninga, lista, íþrótta- og æskulýðsmála.