AFL starfsgreinafélag segist hafa fengið nokkrar ábendingar frá starfsfólki í ferðaþjónustu að í einhverjum tilvikum taki eigendur og yfirmenn allt þjórfé sem gestir skilja eftir en ætlað er starfsfólki.

Er þar vísað til frásagnar starfsmanns á litlu hóteli úti á landi sem sagði að í fyrra hefðu yfirmenn tekið allt þjórfé og sagt að það yrði notað til að slá til starfsmannahátíðar.

Engin slík hátíð hafi hins vegar verið haldin. Í ár væri allt þjórfé tekið en engar skýringar gefnar. „Við höfum rætt við lögmenn félagsins og erum að kanna hvaða möguleika við höfum til að grípa inn í - en þar sem lítil hefði er fyrir þjórfé á Íslandi og engin lög til um ráðstöfun þess getur verið erfitt að grípa til aðgerða,“ segir í frétt á vef AFLs sem birt var fyrir sex dögum.

Framkomuna segja forsvarsmenn AFLs ómerkilega og segja að dæmi séu um að starfsfólki, sem kvartar þegar það fær ekki þjórfé, sé tilkynnt að það sé nóg framboð af fólki til að vinna sama starf. Ef það er ekki ánægt geti það bara leitað annað.

„Yfirmenn sem stela þessum aukagreiðslum sem klárlega voru ekki ætlaðar þeim - eru litlar sálir,“ segir að lokum.