Miðbærinn lokar fyrir akandi umferð frá klukkan sjö um morguninn á laugardag þegar Menningarnótt fer fram eftir þriggja ára hlé.

Frítt verður í strætó og afmörkuð svæði fyrir rafskútur.

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri, setur hátíðina á Hörputorgi áður en Jón Jónsson tónlistarmaður flýgur á svið með tónleikum.

„Þetta verður bara ógeðslega skemmtilegt,“ sagði Einar á blaðamannafundi í dag.

Strætóskutla skutlar fólki frá Laugardalshöll að Hallgrímskirkju.
Frítt far eftir flugeldasýninguna. Strætisvagnar bíða á Sæbrautinni við Höfða. Eftir það tekur næturstrætó við, ekki verður frítt í hann.

Fagna úkraínskri menningu

Allar menningarstofnanir í Reykjavík verða með opið allan daginn og langt fram á kvöld og er ókeypis aðgangur. Dagskráin er fjölbreytt, allt frá barnatónleikum í Hörpu yfir í opin réttarhöld í Héraðsdómi

Til viðbótar verða tónleikastaðir með tónleika, auk þess sem veitingastaðir, kirkjur og verslanir bjóða til veislu. Sérstakur gestur hátíðarinnar verður Support for Ukraine, Iceland. Kristó­fer Gajow­sky skipuleggur úkraínsku hátíðina en hann hvetur Íslendinga sem og Úkraínumenn á Íslandi til að koma saman og fagna úkraínskri menningu.

„Þetta er sérstakur tími fyrir okkur Úkraínumenn og mikilvægt að fagna saman þó þetta séu erfiðir tímar. Við ætlum að spila úkraínska tónlist, ég ætla ekki að segja hvað, það mun koma í ljós,“ segir Kristófer.

Kristó­fer Gajow­sky skipulagsstjóri Support for Ukraine á menningarnótt, Valerie Ósk Elenudóttir, leikkona og starfsmaður Upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á Íslandi, og María Shramko, matreiðslu-, köku- og syk­ur­skreyt­inga­meist­ari.

Hægt er að nálgast dagskrána í heild sinni á vef Menningarnætur.

Kort yfir hátíðarsvæðið.