Tryggingastofnun bíður eftir að geta þrýst á græna greiðslu-takkann um leið og Alþingi er búið að birta lögin sem gefa þeim heimild til að greiða út eingreiðslur upp á allt að 53 þúsund króna til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegna.

Þetta segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR, í samtali við Fréttablaðið.

Alþingi samþykkti fyrr í vikunni tillögu um eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Vilja að fólk njóti um jólin

Sigríður segir allt tilbúið hjá TR, nú sé beðið eftir birtingu laganna svo hægt sé að greiða út greiðslurnar.

Um leið og lögin hafa verið birt mun TR hefja greiðslur, að sögn Sigríðar geti það tekið fjórar til fimm klukkustundir, „ef allt gengur að óskum.“

Sigríður segist vonast til þess að lögin birtist sem fyrst, það gæti gerst í dag. „Þá þrýstum við á græna takkann skal ég segja þér. Við krossum fingur og vonum hið besta. Við eins og allir aðrir viljum að fólk njóti þessa um jólin.“

Hlutfallsgreiðslur samkvæmt lögum

Sigríður reiknar með að ríflega 20 þúsund manns fái greiðslur. Allir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem hafa verið með einhverjar greiðslur á árinu fái hlutfallslega greiðslu.

„Þeir sem voru með greiðslur í 12 mánuði fá fulla greiðslu, aðrir fá hlutfall af því hversu marga mánuði þeir fengu greitt á árinu,“ segir Sigríður og bætir við að það sé samkvæmt lögum.

Að sögn Sigríðar eru þetta um 1,2 milljarðar sem verða greiddir út í heildina.

Síminn legið á hliðinni

Aðspurð hvort mikið álag hafi verið á símaveri stofnunarinnar frá því að heimildin var gefin út segir Sigríður svo vera. „Síminn hefur eiginlega legið á hliðinni.“

Starfsmenn stofnunarinnar hafi lagt allt kapp á undirbúning greiðslnanna á meðan beðið er eftir birtingu laganna.

Sigríður segir að allar upplýsingar verði birtar á vef TR, www.tr.is, um leið og greiðslum er lokið. Þá verði einnig sett nokkur dæmi um upphæðir á greiðslum eftir því hversu marga mánuði á árinu fólk hefur fengið greiðslur.

Hún hvetur fólk til að fylgjast vel með heimasíðunni og þá sé einnig hægt að nálgast allar upplýsingar á mínum síðum.