Um það bil 150 björgunarsveitarfólk Landsbjargar tekur nú þátt í leitinni að Almari Yngva Garðarssyni og von er á fleirum, segir Guðbrandur Örn Arnarson verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörg.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir þyrlu gæslunnar hafa farið af stað í leit klukkan eitt í dag.

„Formlega séð er leitin hafin. Það er unnið út frá þeim upplýsingum sem við höfum,“ segir Guðbrandur.

Víðfeðmt leitarsvæði

Hann segir leitarsvæðið stórt og víðfeðmt, „sem spannar alveg frá nýrum Reykjaness að Þjórsá og allt höfuðborgarsvæðið. Það er undir hluti af Borgarfirði, Akranes, höfuðborgarsvæðið, Reykjanes og síðan hluti af Suðurlandi.“

Að sögn Guðbrands er vitað að Almar Yngvi fór að heiman frá sér á bíl og nú sé lögð áhersla á að finna bílinn.

Aðspurður hvort að veðrið geri leitina erfiðari segir Guðbrandur svo ekki vera, veðrið sé ágætt til leitar að bíl.

„Við erum stór hópur, það er lögregla, þyrla gæslunnar, björgunarsveitir, það er mikið púður lagt í þetta,“ segir Guðbrandur.

Hann segist ekki vita hversu lengi leitin mun standa yfir í dag, „það kemur í ljós út frá því sem við erum að vonast til að fá út frá auglýsingum í blöðum og fjölmiðlum – því við höfum afskaplega takmarkaðar upplýsingar. En nógu mikið til til að hefja leitina.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur alla til að hafa augun opin fyrir bílnum á myndinni.
Myndir/Aðsendar

Gæslan notar flugvél og þyrlu

Samkvæmt Ásgeiri fór þyrla gæslunnar í loftið um eitt leytið í dag.

„Þyrlan kemur til með að fljúga að minnsta kosti strandlengjuna frá Þorlákshöfn að Straumsvík og mögulega eitthvað víðar,“ segir Ásgeir.

Hann bætir við að eftirlitsflugvél gæslunnar, TF-SIF, sem var á flugi, hafi einnig verið nýtt. Hún hafi flogið strandlengjuna suður af Reykjanesskaga.

Ásgeir segir þyrlu gæslunnar verða notaða næstu klukkutímana og svo sé framhaldið í höndum lögreglunnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir Almari Yngva í gær en ekki hefur sést til hans frá því aðfaranótt sunnudags.

Allir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Almars Yngva eru beðnir um að hafa samband við lögregluna.