Ekki verður ráðist í frekari sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr en búið er að taka fyrir frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála og efnahagsráðherra á Alþingi.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur um frekari sölu á ríkisins á bankanum.

Til stóð að taka frumvarp fjármálaráðherra fyrir í nóvember en það nefnist Frumvarp til laga um meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum og er því ætlað að: „styrkja meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum með breyttu fyrirkomulagi þar sem aukin áhersla verður lögð á gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings“

Bjarni tekur þó fram að mögulega verði sérstakt frumvarp lagt fram samhliða og í því settar fram tillögur um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.

Ástæða þess að frumvarpið hafi ekki verið lagt fram fyrr er sú að beðið var eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á sölunni og umræðu um niðurstöðu hans á Alþingi.

Frumvarpinu frestað fram á vor

Frumvarpið er númer 16 á þingmálaskrá Fjármálaráðuneytisins og stóð til að það yrði lagt fram í Nóvember. Fjármálaráðuneytið staðfesti þó i dag að þessu frumvarpi hefði verið frestað fram á vor

Í svari frá fjármálaráðuneytinu kom fram að: Frumvarp til laga um meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum sem áætlað var að leggja fram í nóvember skv. þingmálaskrá mun frestast fram yfir áramót og verður lagt fram á vorþingi. Samþykkt og forsendur fjárlaga eru ekki háð framlagningu frumvarpsins fyrir áramót.

Þetta þýðir að ef frumvarpið er til grundvallar frekari sölu á eignarhlutum ríkisins mun sú sala ekki fara fram áður en fjárlög 2023 eru samþykkt og mun því hagnaður af sölunni ekki koma inn áður en þau taka gildi.

Tímasetning sölu hafi lítil áhrif.

Aðspurður um það hvort það hafi einhver áhrif á íslenskt hagkerfi eða rekstur ríkissjóðs hvort hagnaður af sölunni kemur inn í fjárlög fyrir næsta ár segir Gylfi Magnússon, hagfræðingur að það muni hafa sáralítil áhrif:

„Ríkissjóður er ekki í neinum vandræðum með að fjármagna sig með einhverjum öðrum hætti, þetta hefur í grundvallaratriðum nánast enginn áhrif á hagkerfið eða rekstur ríkissjóðs,“ segir Gylfi en aðrar leiðir til þess að afla fé sé meðal annars með aukinni lántöku.

„Jú það er þannig að þegar ríkissjóður selur ekki eignir þá þarf að fjármagna hann með öðum hætti sem væntanlega kallar þá á aðeins meiri skuldsetningu. En það er ekkert sérstakt vandamál,“ segir Gylfi og tekur fram að ríkissjóður hefur mjög greiðan aðgang að lánsfé.

Gylfi Magnússon hagfræðingur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þannig að þessi skuldsetning kæmi ekki til með að breyta neinu? Þá kæmi bara peningurinn inn með lánum í staðinn fyrir í gegnum söluna ?

„Já í grundvallaratriðum. Auðvitað ef þessi hlutabréf verða seld einhvern tímann í framtíðinni þá verður hægt að nýta afraksturinn ef menn kjósa til þess að greiða niður skuldir. Þannig að þetta skiptir satt best að segja sáralitlu máli,“ segir Gylfi að lokum.