Um tvö þúsund manns mættu í bólusetningu í Laugardalshöll þegar bólusetningar hófust þar að nýju á þriðjudag. Í höllinni verður opið fyrir bólusetningar gegn inflúensu og örvunarskammt gegn Covid-19 fyrir 60 ára og eldri til og með 7. október.

„Við stungum 3.200 sinnum í gær [fyrradag], sumir fengu í báða handleggi, eina sprautu gegn Covid og aðra gegn inflúensu en sumir þáðu báðar,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ragnheiður segir allt hafa gengið vel í fyrradag, enginn hafi fallið í yfirlið. „Þetta er svo sem ekki sá aldurshópur sem hvað mest hefur verið að falla í yfirlið eftir að hafa fengið sprauturnar, það hefur frekar verið yngra fólk svo við eigum ekki von á miklum aukaverkunum núna.“

Notast er við nýja útgáfu af bóluefni gegn Covid sem sérstaklega er sagt veita vörn gegn Omíkron-afbrigðinu. Ragnheiður segir flest þau sem hafi komið í höllina þiggja bæði örvunarskammtinn og bólusetningu gegn flensunni en að hún hvetji þó öll þau sem nú þegar hafi fengið örvunarskammt og náð hafi sextíu ára aldri til að koma í flensu­sprautuna.

Spurð að því hvort fólk geti átt vona á miklum aukaverkunum eða veikindum þiggi það báðar sprauturnar í einu segir Ragnheiður svo ekki vera.

„Með sprautunni er verið að ræsa ónæmiskerfið og það er betra að gera það með tveimur sprautum í einu heldur en einni í dag og annarri á morgun.“