Allt er á floti á Siglufirði vegna úrhellisrigningar sem hefur staðið yfir í rúmlega sólarhring. Vatn flæðir yfir götur og inn í hús. Fréttablaðinu barst myndband þar sem bílar sjást í hálfu kafi.

Viðstaddir segja að björgunarmenn séu á vettvangi að aðstoða bæjarbúa. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, staðfestir útkallið og segir að björgunarsveitarmenn séu að störfum að aðstoða slökkvilið við að dæla vatni.

Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Gunnar Birgisson, var hins vegar genginn til náða þegar Fréttablaðið reyndi að ná tali af honum stuttu fyrir tíu.

Fréttin uppfærð 22:22: Björgunarsveitarmenn á Siglufirði voru kallaðir út rétt í þessu vegna vatnstjóns í einbýlishúsi á Túngötu.