Það er nokkuð óumdeilt að heilbrigði þeirra sem búa í borgum er tengt við umhverfi þeirra og möguleika til útivistar. Græn svæði eru mikilvægur þáttur í því að geta stundað hreyfingu og slökun, þá skila þau einnig umtalsvert miklu til baka í formi framleiðslu súrefnis og með því að draga úr mengun. Í mörgum borgum hafa þau áhrif á hitastig þeirra að hluta og opna möguleika borgarbúa á að nýta sér þau til heilsueflandi þátta hvort heldur sem er félagslegra, líkamlegra og ekki síst andlegra.


Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur áætlað að allt að 3% dauðsfalla á heimsvísu megi rekja til slælegs aðgengis að grænum svæðum til hreyfingar og útivistar, það eru ansi háar tölur og verða yfirvöld að horfa til þess að svæði sem þessi virðast snar þáttur í að viðhalda heilsu þeirra sem þar búa. Við vitum mætavel að þróun borga og þéttari byggðakjarna í heiminum fylgir oft aukin mengun og álag á umhverfið, í fátækari samfélögum þar sem vatns- og fráveitukerfi eru ekki í lagi, loftgæði ónóg og nálægð fólks veruleg geta skapast miklar hættur og sjúkdómar sem við erum blessunarlega að mestu laus við.


Þeir sjúkdómar sem helst er horft til í tengslum við umhverfi eru svokallaðir „non communicable diseases“ eða sjúkdómar sem eru ekki smitandi. Þar má nefna offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og krabbamein almennt. Umhverfi hefur áhrif á þróun allra þessara sjúkdóma og er ljóst að þrátt fyrir að við gerum okkar besta í skipulagi og nálgun er það auðvitað ekki nema hluti af menginu. Hreyfingarleysi og vestrænn lífsstíll er verulega stór áhættuþáttur sem hægt er að hafa áhrif á með því að opna svæði borga og bæja og gera hreyfingu meira aðlaðandi fyrir þá sem þar búa. Það að komast í tengsl við náttúruna er mjög hollt öllum og hefur fyrirbyggjandi áhrif.


Það má skipta þessu að einhverju leyti niður, en hvort sem það er góður göngutúr eða skokk, hjólreiðatúr eða að draga fram línu- eða hjólaskautana skilar það meiri árangri almennt en að gera slíkt hið sama innandyra. Sérstaklega þegar talin eru saman öll áhrifin, þau líkamlegu, andlegu sem og félagslegu. Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega á Íslandi höfum einstök tækifæri til útivistar. Útisundlaugar eru víða, það má synda í sjónum og hita sig svo upp í kjölfarið í heitum potti, við getum gengið á fjöll í námunda við byggð, farið í göngutúr í Laugardalnum eða nánast í óbyggð í Heiðmörkinni eða annars staðar. Margvíslegar íþróttir krefjast útiveru líkt og hjólreiðar, golf eða skíðamennska hvers konar svo dæmi séu tekin og þær má stunda víða um land. Hreyfing, af hvaða toga sem er, bætir, hressir og kætir og okkur er því ekki til setunnar boðið.