Gunnar Skúli Ár­manns­son, svæfinga-og gjör­gæslu­læknir, segir að ef allt hefði verið eðli­legt á Ís­landi hefði hér verið opnaður nýr Land­spítali með full­komnum sótt­vörnum árið 1985.

Þetta kemur fram í Face­book færslu hjá Gunnari þar sem hann bregst við Kast­ljós­við­tali kvöldsins. Þar sat Már Kristjáns­son, yfir­læknir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans, fyrir svörum vegna hóp­sýkingarinnar á Landa­koti.

Gunnar Skúli hefur áður vakið at­hygli á hús­næðis­málum Land­spítalans. Það gerði hann meðal annars í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í janúar síðast­liðinn. Þar sagði hann Land­spítalann sí­fellt að slökkva elda.

Hefðu átt að taka Ragnar Arnalds kverka­taki á sínum tíma

Í Face­book færslu sinni segir Gunnar að víst séu hann og Már sekir. Hann segir erfitt að út­skýra það fyrir fjöl­miðla­fólki sem virðist hafa fæðst í dag.

Hann er ekki eini maðurinn sem gagn­rýnir spurningar Einars Þor­steins­sonar í Kast­ljósi, en Guð­mundur Gunnars­son, fyrr­verandi for­maður Raf­iðnaðar­sam­bandsins, sagðist aldrei hafa séð frétta­manninn leggjast svo lágt.

„Senni­lega hefðum við Már átt að taka Ragnar Arnalds fjár­mála­ráð­herra kverka­taki á sínum tíma og neyða hann til að byggja nýjan full­kominn Land­spítala sem hefði verið opnaður árið 1985. Gömlu húsin jöfnuð við jörðu og veirum þar með út­hýst,“ skrifar Gunnar.

„Það er sök okkar og á­byrgð í málinu að við gerðum það ekki,“ segir hann. „Sann­leikurinn er sá að ef allt hefði verið eðli­legt hefði verið opnaður nýr full­kominn Land­spítali hér í Reykja­vík með full­komnum sótt­vörnum árið 1985.“

Gunnar segir að í dag væri þá verið að byggja nýjan spítala, til að leysa af hólmi þann sem var opnaður 1985. „Af­leiðingin er sú að nú­verandi -al­gjör­lega úr­elt-hús­næði Land­spítalans er hættu­legt sjúk­lingum hans.“

Vill enginn skilja nema starfs­menn

„Vanda­málið er að það vill enginn skilja þetta nema starfs­menn Land­spítalans og ef þeir minnast á ömur­legt hús­næði þá eru þeir annað hvort frekir, sér­hlífnir eða sekir,“ segir Gunnar.

„Að ætlast til þess að við verjum kastala sem er löngu hruninn og heldir engu frá sér er senni­lega pólítík til að forða þeim frá á­byrgð sem bera á­byrgð á kastala­byggingunni.

Kjörnir full­trúar okkar og ráð­herrar hafa snúið blinda auganu að Land­spítalanum að minnsta kosti í 50 ár og því fór sem fór á Landa­koti.“

Í Kastljósinu var Már læknir spurður hvort hann væri nú ekki örugglega viss um að hann bæri nú ekki örugglega ábyrgð á...

Posted by Gunnar Skuli Armannsson on Monday, 16 November 2020