Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 24. september 2021
23.00 GMT

Ég var svona 15 ára þegar ég ákvað að fara í þetta,“ segir Hilmir Snær Guðnason leikari. Hann ólst upp í Reykjavík ásamt foreldrum sínum og þremur systrum. „Ég fæddist reyndar á Patreksfirði en mamma og pabbi fluttu svo til Reykjavíkur ári síðar svo ég er alinn upp á mölinni,“ segir hann.

Hilmir Snær ólst upp í miðbænum og þar býr hann enn. Þegar hann var barn skrifaði hann leikrit og leikstýrði vinum sínum á bekkjarkvöldum í skólanum. „Svo gleymdi ég því alveg þangað til ég fór í gagnfræðaskóla að ég hefði áhuga á þessu og var eiginlega bara í íþróttum,“ segir hann.

„Svo voru tveir vinir mínir að fara að skemmta saman og af einhverjum ástæðum fengu þeir mig með sér og þá kviknaði áhuginn aftur og ég fór á fullt í leiklist,“ bætir Hilmir Snær við. Hann fór í leikfélagið í Hagaskóla og heyrði þar af því að hægt væri að mennta sig sem leikari, sem hann svo gerði og útskrifaðist úr leiklistarskólanum 1994.

„Ég útskrifaðist úr menntaskóla og reyndi eitthvað við háskóla, skráði mig í íslensku eins og pabbi en stóð mig arfailla og mætti aldrei,“ segir hann og hlær en faðir Hilmis er Guðni Kolbeinsson, íslenskufræðingur og þýðandi.

Sorgin hverfur aldrei

Hilmir Snær býr í næstu götu við foreldra sína sem hann segir hafa gefið þeim systkinunum gott rými til að læra og starfa við það sem vakti áhuga þeirra. „Það var aldrei neitt sagt við því að ég ætlaði að verða leikari en reyndar sagði pabbi við mig þegar ég fór í inntökupróf í leiklistarskólann ég og var alveg handviss um að ég kæmist inn að sniðugast væri að vona það besta en búast við því versta,“ segir hann og hlær. Það besta gerðist þó og Hilmir komst inn í fyrstu tilraun.

Systur Hilmis menntuðu sig og störfuðu á ýmsum ólíkum sviðum innan lista, fjármála og sálfræði. „Ég átti þrjár systur en því miður á síðustu fjórum árum hafa tvær þeirra dáið úr krabbameini, nú erum við bara eftir ég og yngsta systir mín.“

Ásdís systir Hilmis lést úr krabbameini árið 2017 og Bergdís lést í maí síðastliðnum. „Hún fékk krabbamein fyrir átta árum síðan svo hún var lengi veik og búin að berjast lengi en Ásdís dó fyrir fjórum árum og það tók snöggt af eftir að hún greindist svo þetta er búið að vera mikið álag á fjölskylduna,“ segir Hilmir Snær.

„Það er erfitt að lýsa þessu en það hefur verið mikill doði yfir allri fjölskyldunni í þessi ár en það er nú samt þannig að maður verður að halda áfram og við höfum verið að vinna okkur í gegnum sorgina,“ segir hann og bætir við að foreldrar hans hafi tekið missinum af miklu æðruleysi.

Hilmir Snær hefur á síðustu fjórum árum misst tvær af þremur systrum sínu, Hann segir sorgarferlið hafa kennt sér að hægt sé að vera sorgmæddur og glaður á sama tíma.
Fréttablaðið/Valli

Upp og niður

Fjölskyldan hafi gefið sorginni rými en þau hafi lært að hægt sé að vera sorgmæddur og glaður á sama tíma. „Maður hefur komist að einu í gegnum þetta tímabil, að maður getur ekki verið sorgmæddur á hverjum degi, það fer alveg með mann,“ segir Hilmir.

„Enda vorum ég og fjölskyldan öll oft glöð og hlæjandi á þessu tímabili og gátum slegið ýmsu upp í létt grín og þær gátu það líka þó þær væru svona veikar,“ útskýrir hann.

„Við erum öll þannig gerð að við förum upp og niður og eins leiðinlegt og það er að þetta hafi gerst þá verðum við að halda áfram að lifa, sama hvort okkur líkar það betur eða verr því að við erum enn þá lifandi,“ segir Hilmir og bætir við að hann sé meðvitaður um að systur hans hefðu viljað að hann héldi áfram að lifa, skemmta sér og hafa gaman.

„Þær hefðu ekki viljað að ég myndi aldrei aftur skemmta mér eða halda matarboð en auðvitað kemur sorgin stundum upp og maður er aldrei laus við hana. Stundum þegar ég er að hafa gaman og er hlæjandi með vinum þá hugsa ég til systra minna og verð leiður í smástund og þegar við fjölskyldan erum saman er áberandi að þær vanti en maður verður að læra að lifa með sorginni.“

Úr sorginni í grínið

Stuttu eftir að Bergdís lést í vor fór Hilmir Snær í tökur á bíómynd. Hann fór og lék í myndinni Allra síðasta veiðiferðin, við Laxá í Aðaldal, en myndin er framhald af Síðustu veiðiferðinni, grínmynd sem sló í gegn í fyrra.

Spurður að því hvernig það hafi verið að fara beint úr sorginni eftir að Bergdís lést í upptökur á grínmynd segir Hilmir það hafa verið hálfgert frí frá sorginni. „Hún lést í maí og í júní fór ég í upptökur á þessari mynd,“ segir hann.

„Þó að það sé kannski hart að segja það þá var þetta eins og smá frí frá sorginni. Við vorum búin að vera í sorgarferli í átta ár, að glíma við að þær væru veikar og svo deyja þær og sorgin tekur yfir, þarna kom pása frá þessu og það þurfa allir frí frá sorginni.“

Hilmir fór stuttu eftir andlát systur sinnar og lék í grínmyndinni Allra síðasta veiðiferðin. Hann segir vinnuna við myndina hafa verið ákveðið frí frá sorginni.
Fréttablaðið/Valli

Frægur á einni nóttu

Hilmir Snær hefur tekið að sér fjölda ólíkra hlutverka í gegnum tíðina, bæði í leikhúsi og sjónvarpi. Hann hefur leikið bæði í gríni og drama og segist njóta þess til jafns.

„Mér finnst svo gaman að geta gert hvoru tveggja vegna þess að stundum er svo gott, þegar maður er búinn að vera að leika drama og kannski orðinn svolítið þungur í sér, að leika eitthvert gamanhlutverk. Það er svo skemmtilegt og allt annar fílingur að koma fólki til að hlæja, það er svo mikill léttir í því og það er mjög endurnærandi.“

Hilmir Snær hafði landað sínu fyrsta hlutverki áður en hann útskrifaðist úr leiklistarskólanum vorið 1994. Rétt fyrir útskrift hringdi Baltasar Kormákur í hann og bað hann að leika í Hárinu, söngleik sem hann var að setja upp í Gamla bíói.

Hilmir hafði hugsað sér að taka frí um sumarið en sló þó á endanum til og þá breyttist allt á einni nóttu.

„Ég var með einhverja fordóma fyrir söngleikjum af því ég þóttist vera svo mikill listamaður og var ekki alveg til í þetta en á endanum sannfærði Balti mig og ég sé ekki eftir því, þetta var svakaleg sýning,“ segir Hilmir.

Upphaflega stóð til að sýna Hárið í mánuð en sýningin sló í gegn og var sýnd fyrir fullu húsi mánuðum saman. „Þetta sló algerlega í gegn og maður var allt í einu orðinn nafn yfir nóttu,“ segir Hilmir Snær sem á þessum tíma var 25 ára gamall.

„Það var mjög skrítið að vakna einn daginn og allt í einu vita allir hver maður er en þetta var rosalega mikið sótt sýning,“ segir Hilmir.

„Þarna var ég líka að byrja í Þjóðleikhúsinu og lék stundum sýningu þar og svo miðnætursýningu á Hárinu, þetta byrjaði með bangi og hefur eiginlega bara verið þannig síðan.“


„Þetta sló algerlega í gegn og maður var allt í einu orðinn nafn yfir nóttu.“


Hrokafullur á tímabilum

Fyrir ungan mann breyttist lífið mikið eftir velgengni Hársins og leikur blaðamanni því forvitni á að vita hvort Hilmir Snær hafi hugað sérstaklega að því að halda sér niðri á jörðinni.

„Sko, ég man alveg eftir því að hafa verið hrokafullur og leiðinlegur á tímabilum,“ segir hann og hlær. „Ég var náttúrulega bara mjög ungur og þetta gerist mjög hratt. Ég fann alveg dálítið til mín, allt í einu orðinn frægur, en svo þroskast maður og þróast og kemst yfir það,“ bætir hann við.

„Svo fattar maður að leikhúsinu er ekki haldið uppi af einum leikara eða að engu er haldið uppi af einni manneskju.“

Þá segir Hilmir bransann á Íslandi lítinn og að fljótt spyrjist út ef einhver er hrokafullur. „Ég held að það hafi nú alveg verið sagt um mig en þetta hefur breyst og nú reynir maður líka að vera fyrirmynd og styðja við þá yngri, það eru nefnilega forréttindin við þetta starf að maður fær að vinna með öllum kynslóðum, ég á vini sem eru jafnvel yngri en dóttir mín og eldri en mamma,“ segir Hilmir en hann á tvær dætur, önnur þeirra er 12 ára og hin 26.

Hann segir gott að eldast í heimi leiklistarinnar. Leikarar verði flestir betri með aldrinum og til séu hlutverk fyrir leikara á öllum aldri. „Þar hallar reyndar á konur að mínu mati og þær hrekjast oft úr þessu starfi fyrr en karlar. Ungar konur leika frekar eldri konur en karlar leika sinn eigin aldur,“ segir Hilmir.

„Ég hef séð margar frábærar leikkonur hætta allt of snemma í leikhúsinu.“

#Metoo

Spurður hvort hann upplifi misrétti milli kynja í leiklistinni í ljósi umræðunnar sem uppi hefur verið í samfélaginu undanfarið, líkt og #Metoo, segir hann ójafnrétti að finna alls staðar.

„Maður hefur alltaf séð þetta alls staðar í kringum sig en samt var ég steinhissa á hvaða stig umræðan fór,“ segir Hilmir.

„Ég upplifði það ekki þannig að þetta væri meira innan leikhússins en annars staðar og það kom mér á óvart.“

Hann segir að að sínu mati hafi umræðan á tímabilum farið út í öfgar en að byltingar þurfi að fara yfir strikið svo að mark sé á þeim tekið og af þeim sé lært. „Mér finnst skrítið að dæma menn án þess að vita hvað stendur að baki og er hlynntur dómstólaleiðinni.

Það á að trúa þolendum en það má ekki dæma áður en búið er að sanna eitthvað,“ segir Hilmir.

„Það eru manneskjur á bak við alla og ef fólk tekur ábyrgð, þiggur hjálp og gengst við því sem það hefur gert þá verður það að eiga afturkvæmt í samfélagið en ekki vera útskúfað að eilífu,“ segir hann.

„En í grunninn er þetta ekkert flókið, lykillinn er bara að ef fólk hegðar sér ekki svona þá koma þessi mál ekki upp,“ segir hann yfirvegaður.

Hilmir Snær nýtur þess til jafns að leika í drama og gríni og segir það gott að eldast í heimi leiklistarinnar.
Fréttablaðið/Valli

Töfrar og skírskotun í náttúruna

Hilmir Snær fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Dýrið sem var frumsýnd í gær ásamt dönsku stórleikkonunni Noomi Rapace. Myndin fjallar um bændahjónin Maríu og Ingvar sem búa í afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bænum ákveða hjónin að ala hana upp sem sína eigin. Hamingja færist yfir litlu fjölskylduna en hún varir skammt.

Myndin er ólík mörgu sem áhorfendur hafa séð áður. Í henni er lítið talað, sögupersónurnar upplýsa um tilfinningar sínar í gegnum svipbrigði og mikil dulúð er yfir henni. Dýrið hefur hlotið lof gagnrýnenda um allan heim og hafa yfir 10 milljónir manna horft á stiklu myndarinnar.

„Fyrst þegar ég las handritið vissi ég ekkert um hvað þessi mynd væri,“ segir Hilmir og skellir upp úr. „En svo fékk ég mér kaffibolla og las handritið aftur og ákvað strax að segja já.

Ég varð strax svo hrifinn af sögunni og þessu töfraraunsæi og svo fannst mér þetta eiga svo mikla skírskotun í náttúruna,“ segir Hilmir sem sjálfur er mikill náttúruunnandi. Hann nýtur þess að vera úti, fara í útreiðartúra og veiða.

„Þessi mynd er eins og ævintýri en bændahjónin taka eitthvað úr náttúrunni og aðlaga sér en aðlaga sig ekki náttúrunni. Þau taka hana til sín eins og manneskjan almennt gerir. Við leyfum okkur að taka og taka frá náttúrunni til að láta okkur líða betur en á endanum refsar náttúran, alveg eins og er að gerast í veröldinni með hlýnun jarðar, hærra hitastigi, skógareldum og svo framvegis.“

Veiðir eins og indíáni

Hilmir veiðir rjúpur og lax ásamt því að vera mikill hestamaður. Hann segist gegnum tíðina hafa breytt venjum sínum þegar kemur að veiði. Hann beri meiri virðingu fyrir náttúrunni og hugsi veiði út frá eðli indíánans.

„Indíáninn fer á veiðar og biður einhver æðri máttarvöld að blessa veiði sína þannig að hann fái eitthvað en hann hættir þegar hann er kominn með nóg,“ útskýrir hann.

„Núna þarf ég bara fjórar rjúpur á jólaborðið og þá veiði ég bara fjórar rjúpur og fer svo niður af fjallinu. Einu sinni snerist þetta bara um að skjóta sem mest,“ segir Hilmir.

„Sama með laxveiðina, ég vil helst koma heim með einn fisk þegar ég fer í veiði, nenni ekki að sleppa öllu, maður er náttúrlega að borga tugi þúsunda fyrir veiðina en þarf ekki meira en einn.“

Eins gott að þú sért duglegur að vinna með svona dýr áhugamál?

„Já, ég veit,“ segir Hilmir og skellihlær. „Ég hef ekkert efni á laxveiði, ég er stundum leiðsögumaður og fæ jafnvel að fara í staðinn fyrir það, maður verður að redda sér fyrir horn í svona dýru sporti,“ bætir hann við.


„Núna þarf ég bara fjórar rjúpur á jólaborðið og þá veiði ég bara fjórar rjúpur og fer svo niður af fjallinu. Einu sinni snerist þetta bara um að skjóta sem mest.“


Keypti hestinn sem hann lék á

Hilmir kynntist hestum fyrst þegar hann var lítill strákur, Benedikt Erlingsson leikari og Hilmir Snær hafa verið vinir frá því að þeir voru tíu ára og fjölskylda Benedikts átti hesta. „Ég fékk svo að fara með þeim í hesthúsið og kynntist þessu þannig.“

Hestamennskunni varð Hilmir svo ástfanginn af þegar hann lék í sinni fyrstu kvikmynd, Agnesi. Þar voru hestar notaðir í myndinni. Í pásum fékk Hilmir að ríða hestunum út, hann reið yfir tún og engi og naut þess svo að hann keypti hestinn sem hann lék á í myndinni.

Síðan þá hefur hestamennskan verið stór hluti af lífi hans, hann járnar sína hesta sjálfur, nýtur þess að ríða út og fara í hestaferðir. „Það er svo geggjuð stemning í þessum ferðum,“ segir Hilmir sem er mikill stemningsmaður.

„Mér finnst mjög gaman að skemmta mér með góðu fólki, sama hvort það er að fara út að borða eða bjóða í matarboð og ég vil alltaf hafa eitthvað að hlakka til, ég er hálf krakkalegur í því,“ segir hann og bætir við að það eigi ekki vel við hann að vera heima uppi í sófa.

Hilmir Snær fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Dýrið ásamt leikkonunni Noomi Rapace. Þar leika þau hjónin Ingvar og Maríu.
Mynd/Aðsend

Eltihrellir frá Þýskalandi

Hann segist ekki upplifa mikið áreiti þegar hann fari út að skemmta sér, Íslendingar séu afar kurteisir.

„Ég fer yfirleitt á sömu staðina og er orðinn hálfgert húsgagn þar svo fólk er ekki mikið að pæla í mér, það er kannski aðallega ef ég fer á einhverja nýja staði en ég hef bara gaman af því. Fólkið sem vil fá selfie með mér eða spjalla við mig er náttúrulega fólkið sem borgar launin mín. Fólkið sem kaupir sig inn í leikhús og bíó og ég tek því bara fagnandi ef það vil spjalla við mig.“

Þrátt fyrir að Hilmir hafi ekki lent í miklu áreiti frá íslenskum aðdáendum hefur hann lent í því að eiga eltihrelli. „Þetta er saga sem mikið er hlegið að í leikhúsinu.“

Fyrir rúmlega tíu árum fékk Hilmir SMS frá þýskri konu sem sagðist vera á Íslandi, gaman væri að hittast í kaffi. „Hún hét sama nafni og kona sem hafði leikið með mér í erlendri bíómynd og ég gerði bara ráð fyrir að þetta væri hún.“

Hilmir bauð konunni á sýningu sem hann var að leika í í Borgarleikhúsinu, setti hana á annan bekk í annað sæti frá hægri. „Svo þegar ég er að hneigja mig þá sé ég konuna en fatta að ég veit ekkert hver hún er.“

Hilmir hugsaði með sér að konan hlyti að hafa unnið með honum í einhverju verkefni og vildi ekki vera dónalegur svo hann bauð henni upp á vínglas að sýningu lokinni og spjallaði við hana í klukkustund. „Þá sagði hún: Gaman hvað þú ert vingjarnlegur svona þar sem við þekkjumst ekkert,“ segir hann.

„Ég kom mér út úr þessu og sagðist þurfa að fara í partí. Hún mætti aftur á sýninguna daginn eftir, svo kom hún heim til mín einn daginn með morgunmat og svo elti hún okkur með sýningu til London, sem betur fer fjaraði þetta að lokum út en ég veit ekkert hver þessi kona er.“

Aðspurður hvað sé fram undan segir Hilmir Snær rólegan mánuð næst á dagskrá. „Ég er í fríi í mánuð en er ekki góður í að slaka á svo ég er auðvitað búinn að finna mér eitthvað að gera, ætla að skella mér í seinni leitir upp í sveit, svo er það bíó í nóvember.“ n

Athugasemdir