Mót­efna­mælingar Ís­lenskrar erfða­greiningar benda til þess að þrisvar sinnum fleiri Ís­lendingar hafi fengið kórónu­veiruna en greindust með hana. Það þýðir að smitin hér­lendis hafi að öllum líkindum verið í kringum tæp 5.500 ef marka má niður­stöður mælingarinnar.

Frá þessu greindi Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, í út­varps­þættinum Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni í dag. Eins og flestir vita hefur Ís­lensk erfða­greining spilað stórt hlut­verk í bar­áttunni gegn út­breiðslu veirunnar hér­lendis en fyrir­tækið tók til að mynda lang­stærstan hluta þeirra sýna sem tekin voru á landinu.

Einnig fór fyrir­tækið ný­lega af stað með mót­efna­mælingar en slembi­úr­taki þjóðarinnar var boðið í sýna­töku. Um 30 þúsund mættu og er nú búið að greina stærstan hluta þeirra sýna. Út frá þeim segir Kári að hægt sé að á­ætla að um eitt prósent þjóðarinnar sé með mót­efni fyrir veirunni.

„Ef þú tekur burtu þá sem eru með stað­festa sýkingu eða voru í sótt­kví, tekur þá út fyrir sviga, þá er um það bil eitt prósent af þjóðinni með mót­efni gegn veirunni. Sem bendir til þess að það séu svona þrisvar sinnum fleiri sem urðu fyrir veirunni heldur en greindust með veiru­prófunum,“ sagði Kári í þættinum. Greind smit á landinu eru nú 1.806 talsins. Tveir eru enn með virk smit, sem vitað er af.