„Málið er enn þá í skoðun en allt bendir til þess að þetta hafi verið frekar saklaus áras. Það eru engin merki um að tölvuþrjótarnir hafi komist í einhver viðkvæm gögn eða upplýsingar," segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu Bankanna í samtali við Fréttablaðið.

Fyrr í dag var gerð tilraun til innbrots í í tölvukerfi Reiknistofu bankanna og við úrlausn málsins varð þjónusturof sem olli truflunum á starfsemi netbanka og debetkorta.

Ragnhildur segir að kerfið sé margþætt og kerfið sem brotist var inn á í dag hafi aðeins verið ysta lagið.

„Við erum með mikla vöktun á öllu því sem er í gangi hér og þó svo að einhver komist inn í ysta lagið eru ekki miklar líkur á að sá sami komist inn í okkar grunnkerfi."

Hún segir að netárásir séu mjög ólíkar en svo virðist sem að þessi árás hafi verið gerð til að koma fyrir virkni sem er nýtt í annað og hafi því verið hálfgerð tilviljun að henni hafi verið beint að RB.

„Það virðist ekki sem árásin hafi verið gerð til að fara inn til RB til að nálgast okkar upplýsingar. Við erum að uppfæra búnað hjá okkur og þá varð röskun á þjónustunni okkar í dag sem hefur ekki beint með þessa árás að gera."