Ríkislögreglustjóri hefur hækkað viðbúnaðarstig á landamærum á hættustig vegna yfirálags eins og segir í tilkynningu frá lögreglu. Embættið reiknar með að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fjölga mjög á síðustu mánuðum ársins og segir í tilkynningu að búsetuúrræði séu þegar nánast fullnýtt.

Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata segir að það sé jákvætt að kerfið okkar sé stakk búið til þess að taka á móti fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Arndís segir að með slíkum fólksfjölda mætum við ýmsum áskorunum, en hún bendir á að stærri samfélög beri sig almennt betur.

„Sam­fé­lög eru fólk, þannig fólk er aldrei inn­rás í sam­fé­lag. Að það komi á­kveðin fjöldi fólks í einu skapar á­skoranir, það eru hlutir sem þurfa að gerast hratt sem að al­mennt þurfa tíma til að byggja upp. En það sem við þyrftum að vera með­vituð um er að við erum enn ­þá að tala um þetta eins og þetta sé tíma­bundið á­stand, en það er ekki þannig,“ segir Arndís.

Jákvætt að þjóðin sé að stækka

Arndís segir að allt bendi til þess að fólksflutningar og fólksflótti muni aukast á næstu árum vegna aðstæðna í heiminum.

„Það er allt sem bendir til þess að fólks­flutningar al­mennt og fólks­flótti líka, sem við köllum þvingaða fólks­flutninga muni aukast á næstu misserum af ýmsum á­stæðum. Þannig það er mjög brýn þörf á því að við tökum þetta allt til skoðunar og horfum til lengri tíma, að þjóðin mun stækka og það er bara já­kvætt. Stærri sam­fé­lög bera sig betur fjár­hags­lega til dæmis og ég endur­tek að sam­fé­lög eru fólk,“ segir Arndís.

Hægt er að sjá viðtalið við Arndísi í heild sinni í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.