Þegar Rebekka Ellen var þrettán ára sendi hún nektarmyndir af sér á jafnaldra sinn í gegnum Snapchat. Skömmu síðar komst hún að því að drengurinn hafði deilt myndunum með félögum sínum og fréttirnar voru ekki lengi að berast um litla bæjarfélagið þar sem hún var búsett. „Allir sem ég þekkti höfðu frétt af þessu, bæði innan skólans og utan,“ segir Rebekka.
Hún kenndi sjálfri sér um það sem hafði komið fyrir og bar harm sinn í hljóði í þrjú ár. Í tilraun til að komast undan orðrómunum og pískrinu í bæjarfélaginu flutti hún til föður síns sem bjó í Danmörku. Þar dvaldi hún í um eitt ár áður en hún flutti aftur til Íslands og hóf nám í menntaskóla í Reykjavík.
„Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Allt kom fyrir ekki. Myndirnar fóru aftur í dreifingu og höfðu nú dúkkað upp á klámsíðum og síðum á borð við Chansluts. „Það voru ótrúlega mikil vonbrigði að uppgötva að það væri ekki hægt að komast undan þessu og þurfa að upplifa hvað krakkar á þessum aldri geta verið andstyggilegir.“

Enginn rétti út hjálparhönd
Á þessum tíma hafði Rebekka enn ekki sagt neinum frá því sem henti eða hlotið neina aðstoð. Þegar myndirnar voru settar á klámsíðu fengu foreldrar hennar fyrst veður af málinu. „Mín upplifun var að foreldrar mínir hafi verið síðastir til að vita þetta í bæjarfélaginu,“ segir Rebekka. Aðrir foreldrar í skólanum höfðu heyrt af málinu en ekkert sagt.
„Þeir foreldrar hefðu átt að hafa samband við foreldra mína, skóla eða yfirvöld. Ef ég set mig í spor þrettán ára Rebekku þá finnst mér að einhver hefði átt að vera nógu fullorðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“
Hún segir að slúður berist gjarnan síðast til þeirra sem það fjallar um, ekki síst í litlum bæjarfélögum. „Það var þannig í þessu tilviki og ég skil bara ekki að engum hafi dottið í hug að bregðast við.“
Þegar foreldrar Rebekku komust að því sem hafði verið að gerast fóru loks hjólin að snúast. Rebekka hlaut viðeigandi hjálp hjá sálfræðingi og farið var með málið til lögreglu. „Ég fór með lögmanninum mínum til lögreglunnar í skýrslutöku og ég man að strákurinn sem dreifði myndunum fór í skýrslutöku á undan mér.“

Ekkert hægt að gera
Skýrslutakan tók sinn toll. „Spurningarnar sem voru settar fyrir mig voru mjög erfiðar og það var farið út í minnstu smáatriði.“ Að lokinni skýrslutöku tók við margra mánaða bið. Á endanum komst lögregla að þeirri niðurstöðu að ekki yrði gefin út ákæra. „Ég held að við höfum kært þá niðurstöðu tvisvar en það fór aldrei neitt lengra og engin ákæra var gefin út,“ segir Rebekka alvarleg. „Það er rosalega erfitt að ná svona málum í gegn og í mínu tilviki var ekkert hægt að gera.“
Rebekka telur að ef málið hefði farið fyrir dóm hefði dómarinn getað dæmt henni miskabætur en markmiðið var aldrei að fá peninga eða fangelsisdómur heldur viðurkenning á því að brot hafi átt sér stað. „Strákurinn sem gerði þetta var undir lögaldri svo hann hefði aldrei fengið neina refsingu,“ ítrekar Rebekka.
„Þremur árum eftir að ég fór í skýrslutöku ákvað ég að ég hafi gert mitt besta og hætti.“ Aldrei hafi neitt komið út úr málinu. „Það var líklegast vegna þess að það eru ekki til nein ákvæði í hegningarlögum sem falla undir svona mál.“ Í einhverjum tilvikum hafi álíka mál verið felld undir blygðunarsemi eða kynferðislega áreitni en það gerist sjaldan að ákæra sé gefin út. „Það eru ekki til nein lög um þetta.“
Tvö frumvörp eru nú til umræðu á Alþingi sem leggja til að þessu verði breytt. Í þeim er lagt til að refsirammi sé hækkaður og að ákvæði verði samin í kringum stafræn brot. Rebekka segir að um nauðsynlega breytingu sé að ræða. „Loksins eru að koma einhver úrræði fyrir þá sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og dreifingu á myndefni án samþykkis.“ Verði frumvörpin samþykkt geti fórnarlömb loks sótt sér lagaleg úrræði. „Sem er eitthvað sem ég gat ekki á mínum tíma.“
Myndirnar enn á flakki
Ekki hefur heldur tekist að ná myndunum af Rebekku niður. „Þegar myndirnar fóru inn á klámsíðu leituðum við til lögreglu til að láta taka þær niður.“ Í ljós kom að síðan sem hýsti myndirnar var með erlenda IP tölu og hvorki var hægt að taka síðuna niður né komast að því hvaða einstaklingar voru að biðja um og dreifa myndunum. „Ég veit að lögreglan hefur vitað af þessari síðu í mörg ár og hefur reynt að gera eitthvað í þessu en það virðist ekkert ganga.“
Það hafi verið erfitt að sætta sig við að myndirnar yrðu alltaf þarna. „Á tímabili upplifði ég kvíða á hverjum degi um að einhver myndi senda eitthvað á mig eða segja eitthvað um þetta.“ Iðulega fékk hún send skilaboð um að myndir af henni væru á hinni eða þessari síðunni eða að einhver væri að óska eftir þeim.
„Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo óþægilegt að vita ekkert hvaða manneskjur standa þarna að baki. Hverjir eru að biðja um þessar myndir?“

Allar stúlkurnar undir lögaldri
Vonleysið hafi iðulega tekið völdin hjá Rebekku á þessu tímabili en sá tími er þó liðinn. „Ég er búin að ganga í gegnum langt bataferli með sjálfri mér og fagaðilum og er á mjög góðum stað í dag.“ Rebekka heldur nú úti Instagram síðunni Mín eign þar sem þolendur stafræns kynferðisofbeldis geta deilt eigin reynslu og frætt sig um málefnið.
Þó nokkrar stúlkur hafa sett sig í samband við Rebekku og treyst henni fyrir sögu sinni. „Það sem þessar sögur eiga sameiginlegt er að allar stelpurnar eru undir lögaldri þegar brotið á sér stað og upplifa sig sem einhverskonar geranda, ekki brotaþola.“
Það sé áberandi stef að stúlkur sem verði fyrir ofbeldi af þessu tagi kenni sjálfum sér um og skammist sín að sögn Rebekku. Sumar geri það jafnvel enn. „Þær hafa líka heyrt ljóta hluti um sig sem brýtur þær niður og fær þær til að trúa því að þær hafi gert eitthvað rangt.“
Sjö ára börn sendi nektarmyndir
Rebekka segir að það vanti sárlega forvörn um málefni af þessu tagi. „Rannsóknir sýna að allt niður í sjö ára börn séu að senda nektarmyndir af sér þannig að þetta er samtal sem þarf að eiga sér stað mjög snemma.“ Allir geti lent í slíkri reynslu.
„Ég vildi óska þess að umræðan væri opnari og að það væru einhver úrræði í boði. Ég hvet alla til að tala um þetta og leita einhvers, ráðgjafa í skóla, foreldra, vinkonu eða bara einhvers sem maður treystir til að hjálpa manni“
Sjálf stefnir hún að því að búa til fræðslu fyrir börn og foreldra í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. „Markmið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektarmyndir, það mun aldrei gerast, heldur bara að það sé meðvitað um hvað geti gerst og afleiðingarnar sem því miður fylgja manni út lífið núna.“