Þegar Rebekka Ellen var þrettán ára sendi hún nektar­myndir af sér á jafn­aldra sinn í gegnum Snapchat. Skömmu síðar komst hún að því að drengurinn hafði deilt myndunum með fé­lögum sínum og fréttirnar voru ekki lengi að berast um litla bæjar­fé­lagið þar sem hún var bú­sett. „Allir sem ég þekkti höfðu frétt af þessu, bæði innan skólans og utan,“ segir Rebekka.

Hún kenndi sjálfri sér um það sem hafði komið fyrir og bar harm sinn í hljóði í þrjú ár. Í til­raun til að komast undan orð­rómunum og pískrinu í bæjar­fé­laginu flutti hún til föður síns sem bjó í Dan­mörku. Þar dvaldi hún í um eitt ár áður en hún flutti aftur til Ís­lands og hóf nám í mennta­skóla í Reykja­vík.

„Ég hélt að ég gæti byrjað upp á nýtt þar og að þessi reynsla væri grafin og gleymd.“ Allt kom fyrir ekki. Myndirnar fóru aftur í dreifingu og höfðu nú dúkkað upp á klám­síðum og síðum á borð við Chansluts. „Það voru ó­trú­lega mikil von­brigði að upp­götva að það væri ekki hægt að komast undan þessu og þurfa að upp­lifa hvað krakkar á þessum aldri geta verið and­styggi­legir.“

Enginn lét foreldra Rebekku eða skólayfirvöld vita hvað væri að gerast.
Fréttablaðið/Ernir

Enginn rétti út hjálpar­hönd

Á þessum tíma hafði Rebekka enn ekki sagt neinum frá því sem henti eða hlotið neina að­stoð. Þegar myndirnar voru settar á klám­síðu fengu for­eldrar hennar fyrst veður af málinu. „Mín upp­lifun var að for­eldrar mínir hafi verið síðastir til að vita þetta í bæjar­fé­laginu,“ segir Rebekka. Aðrir for­eldrar í skólanum höfðu heyrt af málinu en ekkert sagt.

„Þeir for­eldrar hefðu átt að hafa sam­band við for­eldra mína, skóla eða yfir­völd. Ef ég set mig í spor þrettán ára Rebekku þá finnst mér að ein­hver hefði átt að vera nógu full­orðin til að koma mér til bjargar, en það gerðist ekki.“

Hún segir að slúður berist gjarnan síðast til þeirra sem það fjallar um, ekki síst í litlum bæjar­fé­lögum. „Það var þannig í þessu til­viki og ég skil bara ekki að engum hafi dottið í hug að bregðast við.“

Þegar for­eldrar Rebekku komust að því sem hafði verið að gerast fóru loks hjólin að snúast. Rebekka hlaut við­eig­andi hjálp hjá sál­fræðingi og farið var með málið til lög­reglu. „Ég fór með lög­manninum mínum til lög­reglunnar í skýrslu­töku og ég man að strákurinn sem dreifði myndunum fór í skýrslu­töku á undan mér.“

Engin ákæra var gefin út í máli Rebekku.
Fréttablaðið/Ernir

Ekkert hægt að gera

Skýrslutakan tók sinn toll. „Spurningarnar sem voru settar fyrir mig voru mjög erfiðar og það var farið út í minnstu smá­at­riði.“ Að lokinni skýrslu­töku tók við margra mánaða bið. Á endanum komst lög­regla að þeirri niður­stöðu að ekki yrði gefin út á­kæra. „Ég held að við höfum kært þá niður­stöðu tvisvar en það fór aldrei neitt lengra og engin á­kæra var gefin út,“ segir Rebekka al­var­leg. „Það er rosa­lega erfitt að ná svona málum í gegn og í mínu til­viki var ekkert hægt að gera.“

Rebekka telur að ef málið hefði farið fyrir dóm hefði dómarinn getað dæmt henni miska­bætur en mark­miðið var aldrei að fá peninga eða fangelsis­dómur heldur viður­kenning á því að brot hafi átt sér stað. „Strákurinn sem gerði þetta var undir lög­aldri svo hann hefði aldrei fengið neina refsingu,“ í­trekar Rebekka.

„Þremur árum eftir að ég fór í skýrslu­töku á­kvað ég að ég hafi gert mitt besta og hætti.“ Aldrei hafi neitt komið út úr málinu. „Það var lík­legast vegna þess að það eru ekki til nein á­kvæði í hegningar­lögum sem falla undir svona mál.“ Í ein­hverjum til­vikum hafi á­líka mál verið felld undir blygðunar­semi eða kyn­ferðis­lega á­reitni en það gerist sjaldan að á­kæra sé gefin út. „Það eru ekki til nein lög um þetta.“

Tvö frum­vörp eru nú til um­ræðu á Al­þingi sem leggja til að þessu verði breytt. Í þeim er lagt til að refsi­rammi sé hækkaður og að á­kvæði verði samin í kringum staf­ræn brot. Rebekka segir að um nauð­­syn­­lega breytingu sé að ræða. „Loksins eru að koma ein­hver úr­­ræði fyrir þá sem verða fyrir staf­rænu kyn­­ferðis­of­beldi og dreifingu á mynd­efni án sam­þykkis.“ Verði frum­vörpin sam­þykkt geti fórnar­lömb loks sótt sér laga­­leg úr­­ræði. „Sem er eitt­hvað sem ég gat ekki á mínum tíma.“

Myndirnar enn á flakki

Ekki hefur heldur tekist að ná myndunum af Rebekku niður. „Þegar myndirnar fóru inn á klám­síðu leituðum við til lög­reglu til að láta taka þær niður.“ Í ljós kom að síðan sem hýsti myndirnar var með er­lenda IP tölu og hvorki var hægt að taka síðuna niður né komast að því hvaða ein­staklingar voru að biðja um og dreifa myndunum. „Ég veit að lög­reglan hefur vitað af þessari síðu í mörg ár og hefur reynt að gera eitt­hvað í þessu en það virðist ekkert ganga.“

Það hafi verið erfitt að sætta sig við að myndirnar yrðu alltaf þarna. „Á tíma­bili upp­lifði ég kvíða á hverjum degi um að ein­hver myndi senda eitt­hvað á mig eða segja eitt­hvað um þetta.“ Iðu­lega fékk hún send skila­boð um að myndir af henni væru á hinni eða þessari síðunni eða að ein­hver væri að óska eftir þeim.

„Maður hefur enga stjórn á hlutunum og það er svo ó­þægi­legt að vita ekkert hvaða mann­eskjur standa þarna að baki. Hverjir eru að biðja um þessar myndir?“

,,Hverjir eru að biðja um þessar myndir?“ spyr Rebekka.
Fréttablaðið/Ernir

Allar stúlkurnar undir lög­aldri

Von­leysið hafi iðu­lega tekið völdin hjá Rebekku á þessu tíma­bili en sá tími er þó liðinn. „Ég er búin að ganga í gegnum langt bata­ferli með sjálfri mér og fag­aðilum og er á mjög góðum stað í dag.“ Rebekka heldur nú úti Insta­gram síðunni Mín eign þar sem þol­endur staf­ræns kyn­ferðis­of­beldis geta deilt eigin reynslu og frætt sig um mál­efnið.

Þó nokkrar stúlkur hafa sett sig í sam­band við Rebekku og treyst henni fyrir sögu sinni. „Það sem þessar sögur eiga sam­eigin­legt er að allar stelpurnar eru undir lög­aldri þegar brotið á sér stað og upp­lifa sig sem ein­hvers­konar geranda, ekki brota­þola.“

Það sé á­berandi stef að stúlkur sem verði fyrir of­beldi af þessu tagi kenni sjálfum sér um og skammist sín að sögn Rebekku. Sumar geri það jafn­vel enn. „Þær hafa líka heyrt ljóta hluti um sig sem brýtur þær niður og fær þær til að trúa því að þær hafi gert eitt­hvað rangt.“

Sjö ára börn sendi nektar­myndir

Rebekka segir að það vanti sár­lega for­vörn um mál­efni af þessu tagi. „Rann­sóknir sýna að allt niður í sjö ára börn séu að senda nektar­myndir af sér þannig að þetta er sam­tal sem þarf að eiga sér stað mjög snemma.“ Allir geti lent í slíkri reynslu.

„Ég vildi óska þess að um­ræðan væri opnari og að það væru ein­hver úr­ræði í boði. Ég hvet alla til að tala um þetta og leita ein­hvers, ráð­gjafa í skóla, for­eldra, vin­konu eða bara ein­hvers sem maður treystir til að hjálpa manni“

Sjálf stefnir hún að því að búa til fræðslu fyrir börn og for­eldra í grunn­skólum og fé­lags­mið­stöðvum. „Mark­mið mitt er ekki að reyna að láta fólk hætta að senda nektar­myndir, það mun aldrei gerast, heldur bara að það sé með­vitað um hvað geti gerst og af­leiðingarnar sem því miður fylgja manni út lífið núna.“