Hiti nær allt að átján gráðum á Norðausturlandi í dag en spáð er átta til átján gráðu hita á landinu öllu. Þá verður þurrt lengst af norðaustantil en skýjað með köflum og skúrir einkum sunnan- og vestanlands. Suðlæg átt yfir landinu með þremur til tíu metrum á sekúndu. Þetta kemur fram hjá Veðurstofu Íslands.
Veður verður með svipuðu móti á morgun, fimmtudag, en breytist svo á föstudaginn, 17. júní. Þá tekur austlæg átt við með fimm til tíu metrum á sekúndu og rigning með köflum, einkum sunnanlands. Seinni partinn snýst í norðlæga átt og helst yfir á laugardag. Hiti átta til fjórtán stig.
Vindur nær allt að þrettán metrum á sekúndu á laugardaginn og rignir austanlands. Eilítið hlýrra loft, níu til sextán stig. Hækkar á sunnudaginn þar sem getur aftur farið í átján stiga hita á Austurlandi. Þá kemur suðvestanátt og verður bjart að mestu. Skýjað og þurrt á vestanverðu landinu og smá væta um kvöldið.
Eftir helgi tekur við vestlæg átt og verður smá væta víða og hiti milli tíu og átján stig, hlýjast á Suðurlandi.