Ný rann­sókn frá Ísrael á bólu­efni Pfizer og BioN­Tech gegn CO­VID-19 sýnir að fyrsti skammturinn af bólu­efninu veiti tals­verða vernd gegn kóróna­veirunni en niður­stöður rann­sóknarinnar, sem var fram­kvæmd af Sheba spítalanum í Ísrael, voru birtar í Lancet lækna­ritinu í gær.

Ísraelar sam­þykktu bólu­efni Pfizer í desember 2020 og hófst bólu­setning hjá heil­brigðis­starfs­mönnum Sheba spítalans þann 19. desember en starfs­mennirnir voru þátt­tak­endur í rann­sókninni.

Sam­kvæmt rann­sókninni veitti fyrsti skammtur bólu­efnisins að meðal­tali 47 prósent vernd gegn veirunni á fystu tveimur vikunum og 85 prósent eftir 15 til 28 daga. Þá greindust færri með veiruna eftir því sem lengri tími leið frá fyrstu bólu­setningu.

Þörf á frekari rannsóknum

Í lækna­ritinu Lancet er tekið fram að um sé að ræða á­horfs­rann­sókn og því gæti þurft fleiri rann­sóknir til að stað­festa niður­stöðurnar. Þá er í­trekað að flestir þátt­tak­endur hafi verið undir 65 ára aldri og frekar heil­brigðir fyrir og því gæti verið erfitt að yfir­færa niður­stöðurnar.

Niður­staða rann­sóknarinnar hefur þó ýtt undir þá um­ræðu að hægt sé að fresta seinni skammtinum af bólu­efninu en Pfizer ráð­leggur að þrjár vikur séu látnar líða á milli skammta. Pfizer hefur ekki viljað tjá sig um niður­stöður rann­sóknarinnar en þau hafa áður sagt að ekki séu næg gögn til staðar til að meta hvort hægt sé að tefja seinni skammtinn.