Tekjufallsstyrkir stjórnvalda til ferðaþjónustuaðila gætu numið allt að 3,5 milljörðum króna. Hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis verður 7,2 milljónir króna ef frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki nær fram að ganga.

Samkvæmt því verður minni ferðaþjónustuaðilum, leiðsögumönnum og fleirum gert kleift að sækja um styrk vegna tekjufalls sem kom til vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

400 þúsund fyrir hvert stöðugildi

Frumvarpið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og er nú til umfjöllunar á Alþingi. Samkvæmt því munu styrkirnir jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þúsund krónur fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að tekjufallstyrkir geti orðið allt að 3,5 milljarðar króna ef öll fyrirtæki nýta sér þá. Er þetta niðurstaða ráðgjafafyrirtækisins KPMG.

Upphæðin miðast við að öll félög uppfylli skilyrðin um minnst 50% tekjufall fyrir nýtingu úrræðisins. Þannig getur hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis numið 1,2 milljónum króna á mánuði í þá sex mánuði sem gert er ráð fyrir að úrræðið gildi, eða alls 7,2 milljónum króna.

Geta ekki verið með fleiri en þrjá starfsmenn

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi þurfa rekstraraðilar að uppfylla eftirtalin skilyrði til að geta sótt um tekjufallsstyrk: 

  • Að hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
  • Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
  • Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Fréttin hefur verið uppfærð: Upprunalega kom fram að hámarksupphæð til hvers fyrirtækis væri 21,6 milljónir króna. Byggði sú tala á röngum upplýsingum í tilkynningu.