Borgarráð veitti í gær sviðsstjóra velferðarsviðs heimild til að endurnýja þjónustusamning við Útlendingastofnun, þannig að allt að 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd fái þjónustu í Reykjavík. Með því var brugðist við beiðni Útlendingastofnunar, sem barst í október síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í samningi velferðarsviðs við Útlendingastofnun felst að útvega umsækjendum um alþjóðlega vernd húsnæði, fæðis- og framfærslueyri og skólavist fyrir börn, ásamt ýmissi annarri þjónustu á meðan umsókn þeirra um alþjóðlega vernd er til meðferðar hjá stjórnvöldum. Önnur þjónusta getur verið aðstoð vegna heilbrigðistengdrar þjónustu, túlkaþjónustu og ýmiss konar ráðgjöf. Allur kostnaður vegna samningsins greiðist af Útlendingastofnun.
Jafnframt var sviðsstjóra velferðarsviðs veitt umboð til að ganga til samninga við félagsmálaráðuneytið um tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttamanna. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra er verið að ganga frá síðustu lausu endunum varðandi þann samning sem gerir ráð fyrir að velferðarsvið geti þjónustað allt að 380 flóttamenn á ári.
Umsækjendum fjölgað verulega á undanförnum árum
Umsækjendum um alþjóðlega vernd sem setjast að í Reykjavík hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Í fyrsta samningnum sem Reykjavíkurborg gerði við Útlendingastofnun árið 2014 var allt að 50 manns tryggð þjónusta. Í samningnum sem gilti frá apríl 2019 veitti Reykjavíkurborg allt að 220 einstaklingum þjónustu.
„Samhliða þessari miklu fjölgun hefur velferðarsvið aukið til muna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem er fólgin í margþættri aðstoð við athafnir daglegs lífs, bæði inni á heimilum fólks og í samskiptum við aðrar stofnanir. Stuðningurinn kemur frá þverfaglegu teymi sem starfar á velferðarsviði þar sem starfsfólkið er með fjölbreytta menntun, mismunandi bakgrunn og reynslu. Markmið teymisins er að veita umsækjendum sem besta þjónustu meðan á umsóknarferli stendur, stuðla að vellíðan þeirra, valdefla þá og styrkja,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.