Borgar­ráð veitti í gær sviðs­stjóra vel­ferðar­sviðs heimild til að endur­nýja þjónustu­samning við Út­lendinga­stofnun, þannig að allt að 300 um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd fái þjónustu í Reykja­vík. Með því var brugðist við beiðni Út­lendinga­stofnunar, sem barst í októ­ber síðast­liðnum. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg.

Í samningi vel­ferðar­sviðs við Út­lendinga­stofnun felst að út­vega um­sækj­endum um al­þjóð­lega vernd hús­næði, fæðis- og fram­færslu­eyri og skóla­vist fyrir börn, á­samt ýmissi annarri þjónustu á meðan um­sókn þeirra um al­þjóð­lega vernd er til með­ferðar hjá stjórn­völdum. Önnur þjónusta getur verið að­stoð vegna heil­brigðis­tengdrar þjónustu, túlka­þjónustu og ýmiss konar ráð­gjöf. Allur kostnaður vegna samningsins greiðist af Út­lendinga­stofnun.

Jafn­framt var sviðs­stjóra vel­ferðar­sviðs veitt um­boð til að ganga til samninga við fé­lags­mála­ráðu­neytið um til­rauna­verk­efni um sam­ræmda mót­töku flótta­manna. Að sögn Regínu Ás­valds­dóttur sviðs­stjóra er verið að ganga frá síðustu lausu endunum varðandi þann samning sem gerir ráð fyrir að vel­ferðar­svið geti þjónu­stað allt að 380 flótta­menn á ári.

Umsækjendum fjölgað verulega á undanförnum árum

Um­sækj­endum um al­þjóð­lega vernd sem setjast að í Reykja­vík hefur fjölgað veru­lega á undan­förnum árum. Í fyrsta samningnum sem Reykja­víkur­borg gerði við Út­lendinga­stofnun árið 2014 var allt að 50 manns tryggð þjónusta. Í samningnum sem gilti frá apríl 2019 veitti Reykja­víkur­borg allt að 220 ein­stak­lingum þjónustu.

„Sam­hliða þessari miklu fjölgun hefur vel­ferðar­svið aukið til muna þjónustu við um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd sem er fólgin í marg­þættri að­stoð við at­hafnir dag­legs lífs, bæði inni á heimilum fólks og í sam­skiptum við aðrar stofnanir. Stuðningurinn kemur frá þver­fag­legu teymi sem starfar á vel­ferðar­sviði þar sem starfs­fólkið er með fjöl­breytta menntun, mis­munandi bak­grunn og reynslu. Mark­mið teymisins er að veita um­sækj­endum sem besta þjónustu meðan á um­sóknar­ferli stendur, stuðla að vel­líðan þeirra, vald­efla þá og styrkja,“ segir á vef Reykja­víkur­borgar.