Allt að 216 milljónir gætu þurft að flýja heimili sín á næstu þremur ára­tugum vegna lofts­lags­breytinga ef ekkert er gert til að tak­marka kol­efnis­út­blástur og minnka þróunar­bilið á milli ríkra og fá­tækra landa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Groundswell skýrslu á vegum Al­þjóða­bankans sem gefin var út í dag.

Seinni hluti skýrslunnar skoðar hvernig á­hrif hæg­fara lofts­lags­breytinga svo sem vatns­skorts, upp­skeru­brests og hækkandi sjávar­máls gætu leitt til þess að milljónir manna neyðist til að flytja sig um set innan eigin landa og skapað mikinn straum af „lofts­lags­farand­fólki“ um og eftir árið 2050.

Skýrslan skoðar þrjár mis­munandi sviðs­myndir út frá mis­munandi lofts­lags­að­gerðum og al­var­leika­stigum.

Svart­sýnasta spáin, miðað við á­fram­haldandi háan kol­efnis­út­blástur og mis­skiptingu auðs gerir ráð fyrir allt að 216 milljón lofts­lags­farand­fólks innan sex mis­munandi land­svæða; Rómönsku Ameríku, Norður-Afríku, Afríku sunnan Sahara, Austur-Evrópu og Mið-Asíu, Suður-Asíu auk Austur-Asíu og Kyrra­hafsins.

Bjart­sýnasta spáin, miðað við lágan kol­efnis­út­blástur og sjálf­bæra þróun gerir ráð fyrir að fjöldi lofts­lags­farand­fólks gæti orðið 80 prósentum minni en myndi engu að síður færa úr stað allt að 44 milljónir.

Vægðar­laus á­minning

„Groundswell skýrslan er vægðar­laus á­minning um mann­legt gjald lofts­lags­breytinga, sér í lagi á fá­tækasta fólk heimsins – það sem ber minnstu á­byrgð á or­sökum þeirra. Hún bendir einnig á skýra leið fyrir þjóðir til að takast á við sum af lykil­at­riðunum sem eru að valda lofts­lags­tengdum bú­ferla­flutningum,“ segir Juer­gen Voegele, að­stoðar­for­stjóri sjálf­bærrar þróunar hjá Al­þjóða­bankanum.

Skýrslan fjallar ekki um skamm­tíma­á­hrif lofts­lags­breytinga, svo sem á­hrif öfga­veðurs á fólk og staði og heldur ekki um fólks­flutninga á milli landa.

„Við vitum að þrír af hverjum fjórum sem flytja sig um set á al­þjóða­vísu halda sig innan landa,“ segir Dr. Kanta Kumari Rigaud, um­hverfis­sér­fræðingur hjá Al­þjóða­bankanum og með­höfundur skýrslunnar.

Skýrslan varar einnig við því að á­lags­svæði fyrir bú­ferla­flutninga gætu myndast innan næsta ára­tugarins og stig­magnast allt til 2050. Nauð­syn­legt er að gera ráð­stafanir á þeim svæðum sem fólk mun flykkjast til og á þeim svæðum sem verða yfir­gefin til að hjálpa þeim sem verða eftir.

Á meðal þeirra að­gerða sem Al­þjóða­bankinn mælir með er að ná kol­efnis­hlut­leysi um miðja öldina til að eiga mögu­leika á að halda meðal­hita­stigi innan 1,5 gráðu og að fjár­festa í grænni upp­byggingu sem rímar við mark­mið Parísar­sam­komu­lagsins.

Höfundar skýrslunnar vara við því að svart­sýnasta spá þeirra gæti orðið að mögu­leika ef heims­byggðin tekur ekki höndum saman til að tak­marka kol­efnis­út­blástur og vinna fjár­festa í grænum lausnum, sér­stak­lega næsta ára­tuginn.